Grikkir losna ekki við AGS

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Grikkir geta ekki losnað við aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að lánafyrirgreiðslum til Grikklands. Þetta sagði Klaus Regling, yfirmaður björgunarsjóðs Evrópusambandsins, í dag en forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, sagði á dögunum að engin þörf væri á því að AGS kæmi að þeim málum. Vísaði ráðherrann til harðrar afstöðu stofnunarinnar þegar kæmi að kröfum um aðhaldsaðgerðir í Grikklandi vegna frekari lánveitinga.

Haft er eftir Regling í frétt AFP að fjárframlög frá AGS væru skiptu máli í þessu sambandi auk þess sem aðkoma stofnunarinnar væri nauðsynleg í ljósi regla björgunarsjóðsins og samkomulagsins sem gert var á milli Grikklands og alþjóðlegra lánadrottna þess í sumar. Alþjóðlegir lánadrottnar Grikkja eru auk AGS Evrópusambandið og Evrópski seðlabankinn. Þá bætti Regling við að hættan á að Grikkland yrði að segja skilið við evruna væri enn fyrir hendi á meðan nauðsynlegum umbótum væri ekki hrint í framkvæmd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert