Ekki næg sönnunargögn til staðar

Palestínskur maður virðir fyrir sér brunarústirnar.
Palestínskur maður virðir fyrir sér brunarústirnar. AFP

Varnarmálaráðherra Ísraels sagði í dag að enn væru ekki til næg sönnunargögn til að rétta yfir öfga­sinnuðum gyðing­um sem kveiktu í heimili palestínskr­ar fjöl­skyldu á Vest­ur­bakk­an­um í júlí. Ungt barn lét lífið í eldinum og báðir foreldrar þess.

Þrýst hefur verið á það að árásarmennirnir verði látnir svara til saka fyrir morðin en þeir voru handteknir í byrjun þessa mánaðar. Mannréttindasamtök hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir því hversu langan tíma það hefur tekið að rannsaka málið.

Varnarmálaráðherrann Moshe Yaalon sagði í dag að Ísrael myndi sakfella þá sem bæru ábyrgð. Kallaði hann árásina „hryðjuverk“.

En hann bætti við að enn væri lítið til af sönnunargögnum, en tæpir fimm mánuðir eru frá íkveikjunni sem varð í þorpinu Duma. „Við vitum hverjir bera ábyrgð en erum ekki með næg sönnunargögn til að rétta yfir þeim,“ sagði Yaalon.  

Ekki er búið að gefa upp nöfn á þeim sem handteknir voru vegna íkveikjunnar 3. desember sl. Ekkert bendir til þess að þeir hafi verið ákærðir. 

Hinn átján mánaða gamli Ali Saad Dawabsha og foreldrar hans létu lífið í íkveikjunni. Fjögurra ára gamall sonur hjónanna lifði af. Davíðsstjarnan og orðin „hefnd“ og „lengi lifi Messías“ voru skrifuð með málningu á vegg nálægt húsinu.

Fyrri fréttir mbl.is:

Hryðjuverkamenn handteknir fyrir íkveikju

Fordæma kaldrifjað morð á barni

Fjögurra ára sonur hjónanna Ahmed Dawabsha er enn á sjúkrahúsi …
Fjögurra ára sonur hjónanna Ahmed Dawabsha er enn á sjúkrahúsi eftir að hafa lifað af íkveikju í júlí. AFP
mbl.is