Hitler var með eitt eista

Hitler ku hafa þjáðst af launeista.
Hitler ku hafa þjáðst af launeista. AFP

Svo virðist sem sannleikskorn sé að finna í lagi sem kynslóðir breskra barna sungu um eineistna Adolf Hitler. Þýskur sagnfræðingur hefur grafið upp heilsufarsskýrslur leiðtoga nasista, sem benda til þess að hann hafi aðeins haft eitt eista.

Skýrslurnar, sem voru teknar við skoðun í kjölfar handtöku Hitler árið 1923, sýna að hann þjáðist af „launeista“, cryptorchidism, hægra megin, en launeista er orðið sem notað er um það þegar eista gengur ekki niður í pung.

Um heilsu Hitler, „listamann, nýlega rithöfund“ hafði Dr. Josef Steiner Brin annars það að segja að hann væri „heilsuhraustur og sterkur“.

Skýrslur um heilsufarsskoðunina dúkkuðu upp á uppboði í Bæjaralandi árið 2010 og voru snarlega gerðar upptækar af yfirvöldum. Það var hins vegar prófessorinn Peter Fleischmann við Erlangen-Nuremberg háskóla sem lagðist nýlega í rannsóknir á þeim.

Venjulega ganga eistu karlmanna niður í pung í barnæsku en Fleischmann sagði í viðtali við þýska dagblaðið Bild að skýrslunar sýndu að annað eista Hitlers hefði líklega aldrei gengið niður.

Gögnin virðast benda til þess að sú flökkusaga eigi ekki við rök að styðjast að leiðtoginn hefði misst annað eistað þegar hann fékk í sig sprengjubrot í orrustunni við Somme í fyrri heimstyrjöldinni.

Þau eru heldur ekki í samræmi við frásögn læknisins sem annaðist Hitler í barnæsku, en hann sagði við yfirheyrslur Bandaríkjamanna 1943 að æxlunarfæri hans væru „fullkomlega eðlileg“.

Guardian sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina