„Hvað er heima?“

Feðgarnir Ahmad og Adam eru frá Bagdad og búa í …
Feðgarnir Ahmad og Adam eru frá Bagdad og búa í flóttamannabúðum í Leeuwarden EMMANUEL DUNAND

Hvað er heima? er spurning sem fleiri tugir milljóna jarðarbúa spyrja sig þessa dagana. Áætlað er að um 60 milljónir séu á vergangi. Það þýðir að einn af hverjum 122 íbúum heimsins hefur neyðst til þess að yfirgefa heimili sitt. 

Um ein milljón flóttamanna hefur komið til Evrópu í ár en undanfarin ár hefur tala flóttafólks í Evrópu hækkað hratt. Á hverju ári hafa milljónir þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka eða annarra hörmunga í heiminum en í Evrópu hefur staða flóttafólks ekki verið jafn áþreifanleg síðan á tímum seinni heimstyrjaldarinnar eða í sjötíu ár.

Allt síðasta ár fjölgaði þeim sem lögðu líf sitt í hættu við að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið en 3.700 flóttamenn höfnuðu í votri gröf á flótta sínum til álfunnar.

mbl

Í skýrslu samtakanna Læknar án landamæra (Medecins sans Frontières) frá því fyrir ári síðan er harðlega gagnrýnt hvernig ríki Evrópu og Evrópusambandið taki á móti flóttafólki, svo sem á grísku og ítölsku eyjunum og víðar.

Evrópskir fjölmiðlar fjölluðu lítið, miðað við fjölda flóttamanna, um flóttamannastrauminn fyrstu þrjá mánuði ársins en það breyttist í apríl þegar fréttir bárust af því að 1.700 flóttamenn, alls staðar að úr heiminum, drukknuðu í Miðjarðarhafi á rúmum sólarhring. Þar af drukknuðu um 800 þegar bát þeirra hvolfdi á ferðalaginu frá Líbíu til Ítalíu.

mbl

Fréttirnar sem fönguðu athyglina

Í sumar var það leiðin yfir Balkanskagann sem fangaði athygli fjölmiðla, meðal annars fréttir af 71 flóttamanni sem kafnaði úr hita á hraðbraut í Austurríki. Þar höfðu smyglarar skilið flutningabílinn eftir en talið er að fólkið hafi verið látið í tvo sólarhringa í bílnum áður en líkin fundust fyrir tilviljun. Í kjölfarið var talsvert fjallað um smygl á fólki innan Evrópu en smygl á fólki og mansal er tvennt ólíkt, samkvæmt skilgreiningu flóttamannaaðstoðar SÞ. Smyglarar fá greitt fyrir að koma fólki á milli landa en mansal þýðir að glæpamaðurinn hagnast á misnotkun á fórnarlambinu, það er að fórnarlambið er selt í þrældóm eða vændi. Smygl á sér alltaf stað á milli landamæra en mansal getur átt sér stað milli borga.

Í breskum fjölmiðlum og víðar var talsvert fjallað um „flóttamannavandann“ við Ermarsundið síðsumars og gengu stjórnmálamenn og leiðarahöfundar þar í landi jafnvel svo langt  að tala um sæg­ af fólki (sw­arm of people- orðið sw­arm er oft notað um sveim­ur af fugl­um eða flug­um td. mávager) sem reyn­i að kom­ast til Bret­lands enda fór það í taugarnar á mörgum þeirra sem fóru um Ermarsundsgöngin tafir sem urðu fyrir vegna þeirra þúsunda sem reyndu að komast til fyrirheitna landsins – Bretlands- án árangurs og enduðu í nýjasta úthverfi Calais, Jungle, þar sem flótta- og förufólk býr á gömlum sorphaugum við skelfilegan aðbúnað.

„Ein mynd þagg­ar niður í heim­in­um“

Sýrlenski drengurinn Aylan Shenu (Kurdi) vakti heiminn til umhugsunar um …
Sýrlenski drengurinn Aylan Shenu (Kurdi) vakti heiminn til umhugsunar um flóttamannavandann. Þriggja ára gamall drengur klædd­ur í rauðan stutterma­bol og blá­ar stutt­bux­ur fékk heiminn til þess að bregðast við en hann sjálfur upplifði aldrei lífið án stríðs. AFP

 

En síðan gerðist atburður, eða réttara sagt mynd var birt, sem breytti öllu, eða eins og kom fram í Twitter færslu ítalsks dag­blaðs: „Ein mynd þagg­ar niður í heim­in­um.“

Myndin var af líki Ayl­an Shenu (hann er yfirleitt kendur við Kurdi í fréttum en þar er vísað til þess að hann er Kúrdi), þriggja ára gamals sýrlensks drengs sem drukknaði ásamt fimm ára göml­um bróður sín­um, Galip, og móður, Reh­an, á flótt­an­um. Faðir þeirra, Abdullah, er sá eini sem lifði flótt­ann af. 

Ayl­an skolaði á land á einni vin­sæl­ustu strönd meðal ferðamanna í Tyrklandi og myndir af honum fóru út um allan heim. Þetta hafði mikil áhrif á umræðuna í Evrópu og víðar og var þess krafist að stjórnvöld ríka og ESB gripu til aðgerða. Það var samþykkt, meðal annars að ríki ESB tækju að sér allt að 160 þúsund flóttamenn, en allt bendir til þess að aðgerðirnar fari hægar af stað en menn áttu von á í september þegar mörgum var heitt í hamsi. Það skýrist meðal annars af regluverki og því að geta boðið fólki upp á mannsæmandi aðstæður við komuna til móttökuríkisins.

Fjölskylda Aylans ætlaði að reyna að kom­ast til Kan­ada þrátt fyr­ir að hæl­is­um­sókn þeirra hafi verið hafnað af kanadískum yfirvöldum. Fjöl­skyld­an var frá bæn­um Kobane en flúði til Tyrk­lands í fyrra und­an liðsmönn­um Rík­is íslams.  Sex vikum eftir að Alyan drukknaði var komin önnur ríkisstjórn í Kanada, stjórn sem ætlar sér að taka á móti tugum þúsunda flóttamanna frá Sýrlandi.

mbl

Fimmta heimilið á þremum mánuðum

Adam er sjö mánaða og hann á erfitt með svefn enda truflar hann hávaðinn frá þeim sex hundruð öðrum flóttamönnum sem hann deilir heimili með í norðurhluta Hollands.

„Heimilið“ er það fimmta sem fjölskyldan eignast á þremur mánuðum. Um er að ræða skúr úr krossvið sem þau deila ásamt tveimur öðrum íröskum fjölskyldum í sýningarhöll sem breytt hefur verið í flóttamannabúðir. Það eru engar hurðir sem hægt er að loka, ekkert þak og ekki möguleiki að sofa lengur en til sjö á morgnana þegar birtan af loftljósunum sýningarhallarinnar tekur völdin.

„Þetta er ekkert líf. Hvernig get ég útskýrt þetta?“ spyr Ahmad, 27 ára gamall faðir Adams. „Þetta er eins og að vera fugl í búri. Fuglinn borðar og drekkur en líður ekki vel.“

Ahmad, eiginkona hans, Alia, og sonur þeirra Adam, hafa verið á flótta síðan í september. Þremur mánuðum síðar líður þeim eins og þau séu lokuð inni í völundarhúsi hægfara stjórnsýslu. Það sem vekur gleði þeirra er að fylgjast með syninum vaxa og dafna þrátt fyrir að ferðalaginu sé hvergi nærri lokið. Hann er farinn að babla, segir mamma og pabbi og nær næstum því að standa sjálfur. 

Það sem flóttafólkið talar um er að ef ekki væri fyrir börnin þá væri það löngu búið að gerast upp enda flýr enginn að heiman í gamni sínu heldur vegna þess að það neyðist til. Fjölskylda Ahamds á ekki neitt og er allslaus. Ahmad átti fataverslun í Bagdad áður en þau flúðu heimalandið. Þau voru í ágætum efnum en nú eru þau í sömu stöðu og aðrir - stéttlausir flóttamenn sem bera blátt plastarmband svo hægt sé að bera kennsl á þá sem íbúa í búðunum.

Þau Ahmad og Alia í biðröð eftir mat ásamt 600 …
Þau Ahmad og Alia í biðröð eftir mat ásamt 600 íbúum heimilisins AFP

Óttast að vera send „heim“

Þau vita ekki hvað bíður þeirra og hafa ekki fengið upplýsingar um hvort þau fái hæli í Hollandi. Enda hafa aldrei áður jafn margir sótt um hæli í Hollandi og í ár, líkt og víðast hvar í Evrópu. Þau óttast að vera send aftur „heim“.

Ahmad hefur áhyggjur af því hvernig afstaða Evrópubúa hefur breyst í garð flóttafólks eftir hryðjuverkaárásirnar í París 13. nóvember.

„Fólk var vant því að bjóða okkur góðan daginn á götum úti. Það var vant að bjóða okkur velkominn. En það er ekki þannig lengur,“ segir Ahmad í viðtali við AFP. Þetta viðhorf tala margir flóttamenn um og ekki síst þeir sem eru múhameðstrúar. Stjórnmálamenn í Evrópu og Bandaríkjunum hafa ekki hikað við að segja að það eigi bara að veita þeim skjól sem aðhyllast kristna trú. Ekki eigi að hleypa múslímum inn í landið en ekki hafa komið fram útfærðar hugmyndir um hvernig standa eigi í valinu við landamæri viðkomandi ríkja. 

Adam á nýja heimilinu sínu
Adam á nýja heimilinu sínu AFP

Staða fjölskyldunnar endurspeglar stöðu hundruð þúsunda annarra, sem búa við ömurlegur aðstæður í ríkjum Evrópu. Fólks sem býr í íþróttahöllum og öðrum opinberum byggingum þar sem ekki eru önnur úrræði í boði. 

Létu aleiguna í hendur smyglara

Þegar Ahmad og Alia sluppu naumlega í sprengjutilræði í Bagdad í fyrra ákváðu þau að leggja allt í sölurnar og flýja yfir Eyjahaf í sumar. Fjölskyldan fór um sjö lönd á flóttanum og einn erfiðasti hluti flóttans var Balkanskaginn. Þau sluppu naumlega við handtöku og afhentu smyglurum aleiguna, níu þúsund evrur, 1,3 milljónir króna, til þess að komast á áfangastað. Markmiðið var að komast til Hollands en þau eiga ættingja í Utrecht. Borgin fagra á hinsvegar fátt eitt sameiginlegt með þeim stöðum sem þau hafa gist á undanfarna mánuði og hafa verið „heimili“ þeirra. Þau eru núna bænum Leeuwarden og hafa verið þar síðan 16. október. Það tók yfirvöld fimm vikur að skrá hælisumsókn fjölskyldunnar.

„Mér leið eins og Holland vildi okkur ekki - það var eins og verið væri að segja okkur að fara,“ segir Ahmad.

En hollensk yfirvöld hafa tekið á móti 54 þúsund hælisumsóknum á rúmum ellefu mánuðum og þau hafa ekki undan. Ekkert frekar en starfsmenn hjá Útlendingastofnunum flestra ef ekki allra landa í Evrópu. 

mbl

Alet Bowmeester, talskona Útlendingastofnunar Hollands, segir að þeirra bíði stórir staflar umsókna sem verið er að fara yfir. Það taki tíma sem reyni oft á þolrif fólks.

Fjölskyldan bíður því eftir því að fá svar en að sögn Aliu reyna þau að láta dagana líða. Hún hittir aðrar konur á morgnana í rými sem þær nýta sem snyrtiherbergi og þar farðar hún yfir örin sem hún ber í andlitinu eftir sprengjutilræðið í fyrra.

Einu sinni í viku fer fjölskyldan á kebab stað sem nefnist Mouni og er afar vinsæll meðal flóttafólksins. 

„Þetta er kannski ekki sami maturinn og í Írak en það er gott að borða eitthvað sem minnir á heimalandið,“ segir Alia.

Trébátur í dýragarði vekur skelfilegar minningar

Eins hafi þau farið með öðrum sýrlenskum og íröskum flóttamönnum í dags heimsókn í dýragarð. Heimsóknin var kostuð af kirkjunni. Það sem þeim fannst skemmtilegast var að fylgjast með selunum í tjörn dýragarðsins.

Starfsmenn dýragarðsins fara með gesti á trébátum út á tjörnina þegar verið er að gefa selunum en það reynist mörgum erfitt og rifjar upp slæmar minningar. Börnin eru yfirleitt alsæl en fullorðna fólkið er skelfingu lostið um borð í litla bátnum. Lömuð af ótta við minninguna um flóttann á smábát yfir úfið haf á leið til Grikklands.

Írakska fjölskyldan, Ahmad, Alia og sonur þeirra Adam á leið …
Írakska fjölskyldan, Ahmad, Alia og sonur þeirra Adam á leið í dýragarðinn EMMANUEL DUNAND

Alia segir að í hvert skipti sem hún heyrir mikinn hávaða þá hellist yfir hana minningin um hávaðann frá sprengjunum í Bagdad. Eins hugsar hún með hryllingi til Balkanskagans þar sem flóttafólk er álitið úrhrök og afætur af mörgum. Hún vill gleyma þessum hluta lífs síns.

Fréttamaður AFP spyr hana hvort hún sé hamingjusamari í Hollandi en í Írak og Alia staðfestir að svo sé. „Auðvitað er þetta betra, þetta er miklu betra. Það er ekkert haf, það er engin flótti, enginn ótti. Það kemur enginn og ætlar að meiða okkur eða stela frá okkur.“

En hún óttast líkt og eiginmaðurinn að þau fái ekki leyfi til þess að dvelja áfram í Hollandi.

mbl

Dreymir um vinnu, hús og bíl

Ahmad er byrjaður í hollenskunámi og sækir tíma með átta Sýrlendingum og Erítreumönnum en það er hollenskur sjálfboðaliði sem annast kennsluna.

„Eftir fimm ár... vonast ég til þess að verða hollenskur ríkisborgari svo ég geti ferðast um allan heim,“ segir Ahmad. 

Fjölskyldan á göngu í Leeuwarden
Fjölskyldan á göngu í Leeuwarden AFP

Draumurinn er að fá vinnu og læra tungumál. Eignast bíl og hús. „Líf okkar verður gott,“ segir Ahmed þegar hann lýsir fyrir fréttamanni draumum sínum.

Tveimur dögum eftir að AFP fréttastofan tók viðtalið við fjölskylduna þá var hún flutt á nýjan stað. Á þessu sjötta „heimili“ þeirra eru þau með sérherbergi og eru alsæl með lífið. „Þetta er kannski ekki frábær staður en miklu betri,“ segir Ahmad þegar AFP nær sambandi við hann á nýja heimilinu.

Saga flóttafjölskyldna er svipuð, þau eru í leit að betra lífi og oft á tíðum í leit að lífi. Eitthvað sem þau eru úrkula vonar um að gangi eftir í heimalandinu. 

Neitað um almenn mannréttindi

Hver vegur að heiman er vegurinn heim. Það fer enginn á flótta að gamni sínu, fólk er að flýja hörmungar þar sem líf þeirra liggur við. Eins og staðan er í árslok 2015 eru minni líkur en nokkru sinni á undanförnum þremur áratugum að fólk sem hefur hrakist á vergang komist nokkurn tíma heim aftur. 

Íraskur flóttamaður, Laith Maj­id, náði at­hygli heims­ins þegar mynd var …
Íraskur flóttamaður, Laith Maj­id, náði at­hygli heims­ins þegar mynd var birt af hon­um grát­andi við kom­una til grísku eyj­unn­ar Kos um miðjan ágúst. Í viðtali við BBC nýlega sagðist hann helst aldrei vilja sjá þessa mynd framar. Hún kalli fram skelfilegar minningar um það þegar samferðarmenn þeirra drukknuðu er bátnum hvolfdi. Börnhans geta ekki enn sofið þar sem martraðir sækja á þau á hverri nóttu. Martraðir um lífið í heimalandinu og flóttann yfir hafið. Skjá­skot/Photograph: Daniel Etter/New York Times / Red­ux / eyevine

Í Tyrklandi búa 2,2 milljónir sýrlenskra flóttamanna. Í Líbanon eru þeir 1,1 milljón en það svarar til fimmtungs allra Líbanana. Í Jórdaníu eru 633 þúsund sýrlenskir flóttamenn sem er um það bil tíundi hver af heild þeirra sem búa í Jórdaníu. 

Flóttafólkinu er neitað um almenn réttindi svo sem atvinnuréttindi og það er ein helsta ástæðan fyrir því að Sýrlendingar, til að mynda, halda flóttanum áfram og alla leið til Evrópu. Þar vonast fólk til þess að njóta mannréttinda sem þeim var veitt með flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951.

Ossama Abdul Mohsen komst í kastljós fjölmiðla eftir að ungverska …
Ossama Abdul Mohsen komst í kastljós fjölmiðla eftir að ungverska kvik­mynda­töku­kon­an Petra László brá fyrir hann fæti í september. Hann segir að fyrst á eftir hafi hann verið fullur reiði en sé það ekki lengur. Hann er kominn til Madrídar ásamt tveimur sonum sínum en eiginkona hans og önnur börn eru föst í Tyrklandi. Hann segir Spánverja stórkostlega og allir hafi tekið vel á móti þeim feðgum. Skjáskot úr myndskeiðinu

„Í Jórdaníu er lífið svo erfitt,“ segir Nemer, 24 ára sýrlenskur háskólanemi sem Guardian ræddi við skömmu eftir komuna til Lesbos í síðustu viku. „Það er enga löglega vinnu að fá og ég get ekki fengið að fara í háskóla. Það er engin von. Í Tyrklandi eru þessu eins farið, engin vinna og engin framtíð.“

Evrópusambandið og Tyrkland vinna að gerð samkomulags um að ESB leggi Tyrkjum til þrjá milljarða evra til þess að bæta aðbúnað flóttafólks þar í landi. Er það gert í von um að það dragi í flóttamannastraumnum til Evrópu.

Mohammad Zatareyh, 26 ára Sýrlendingur, komst í fréttirnar í september …
Mohammad Zatareyh, 26 ára Sýrlendingur, komst í fréttirnar í september þegar hann ásamt þúsundum annarra flóttamanna gáfust upp á biðinni á Keleti brautarstöðinni í Búdapest og hélt af stað fótgangandi til Austurríkis. Þau gengu 180 km leið og komust að lokum að landamærum Austurríkis. Hann er nú í Þýskalandi og bíður þess að hælisumsókn hans verði afgreidd. UNHCR

Kom til Evrópu til þess að líða eins og manneskju

Aruba al-Rifai er 44 ára gamall opinber starfsmaður frá úthverfi Damaskus. Hann kom til grísku eyjunnar Lesbos í vikunni sem leið beint frá Sýrlandi. „Sprengjutilræðin eru að versna og þetta er aðeins upphafið,“ segir Rifai þegar Guardian ræddi við hann. „Ég kom til Evrópu til þess að líða eins og manneskju.“

mbl

Það er hins vegar ekki upplifun allra þeirra, að minnsta kosti ekki sýrlenskrar fjölskyldu sem New York Times fylgdist með í lok sumars og þangað til í nóvember. Flóttinn reyndi eðlilega á en verst var það í Danmörku þar sem var komið fram við þau á sama hátt og skítinn á götunni og allri fjölskyldunni, börnum sem fullorðnum, varpað í fangaklefa áður en þau voru rekin úr landi.

Nú er fjölskyldan í Svíþjóð þar sem hún bíður eftir því að umsókn þeirra um hæli verði tekin fyrir. Þegar þau kvarta yfir aðbúnaðinum er þeim sagt að það hafi enginn beðið þau um að koma. Þau eru farin að þrá Sýrland aftur og þeirra von er að ástandið þar lagist svo þau geti snúið aftur heim. En hvað er heima er enn spurning í huga margra þeirra sem eru á flótta undan ástandinu í heimalandinu. 

Ljósmyndari ársins að mati Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert