Senda hælisleitendur á námskeið

Hælisleitendur í Freilassing í Þýskalandi.
Hælisleitendur í Freilassing í Þýskalandi. AFP

Noregur býður hælisleitendum upp á námskeið um hvernig eigi að túlka siðferði ríkis sem kann að virðast þeim furðulega frjálslynt. Er körlum kennt ýmislegt er varðar menningarmun í réttindum kvenna og viðeigandi framkomu í þeirra garð milli heimalanda fólksins og Noregs.

Kynferðisofbeldi gegn miklum fjölda kvenna í Köln á nýársnótt hefur vakið heitar umræður um innflytjendamál þar sem talið er að margir sökudólganna séu af arabískum og norður-afrískum uppruna. Hafa vaknað spurningar um hvernig eigi að samlaga karlmenn frá samfélögum þar sem feðraveldinu er hyglt við veruleika Evrópu þar sem konum er frjálst að klæða sig eftir eigin höfði, drekka og skemmta sér.

„Markmið okkar er að hjálpa hælisleitendum að forðast mistök þegar þeir uppgötva norska menningu,“ útskýrir Linda Hagen hjá Hero, einkafyrirtæki sem rekur 40 prósent hælisleitendamiðstöðva Noregs. „Það er enginn einn menningarlegur kóði til yfir það sem er góð eða slæm hegðun þar sem við viljum frjálst þjóðfélag.“

„Það þarf að vera þolinmæði fyrir viðhorfi sem kann að virðast ósiðleg eftir sumum hefðbundum og trúarlegum venjum.

Námskeiðin eru ekki nýtilkomin heldur rekja þau upphaf sitt til þess sem Hagen kallar „öldu nauðgana“ sem voru mestmegnis framdar af útlendingum í Stafangri á árunum 2009 til 2011. Var fyrst boðið upp á námskeiðið í ákveðnum miðstöðvum en er það nú hluti af skyldukynningarefni hælisleitenda í Noregi. Tekin eru dæmi úr raunheimum til til þess að ræða um kynferðislega áreitni.

„Það gæti verið 18 ára strákur sem segist hissa á þeim áhuga sem sumar stúlkur í Noregi sýna honum. Hann gerir ráð fyrir að þær vilji sofa hjá honum,“ segir Hagen. „Svo hópleiðtoginn spyr hann: Hverjar eru þessar stúlkur? Hvar hittirðu þær? Hvernig veistu að það er kynlíf sem þær vilja? Ekki allar konur í Noregi eru eins.“

Varast er að útskúfa innflytjendur á námskeiðinu og er því hlutverk kynferðisbrotamanns oft í höndum Norðmanna. „Við snúum hlutverkunum oft svolítið við þar sem það eru nauðgarar í öllum kynþáttahópum.“

Slík námskeið eru þó ekki endilega endanleg lausn á vandanum.

Sýrlenskur maður matar dóttur sína.
Sýrlenskur maður matar dóttur sína. AFP

Góð lífsskilyrði nauðsynleg

„Ég tel ekki að námskeiðið eitt og sér geti verndað okkur frá hlutum sem velta svo mikið á innviðum samfélagsins,“ segir sálfræðingurinn Per Isdal.

„Til að koma í veg fyrir kynferðisárásir karla þarf að sjá fyrir góðum lífsskilyrðum, svo sem starfi og húsnæði, og berjast gegn fátækt.

Isdal vinnur ásamt stofnun sem heitir Alternative to Violence og hefur hannað breiðara tilraunaverkefni þar sem umræðuhópar einbeita sér að því að fyrirbyggja ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi, og notast var við um allt landið á árunum 2013 til 2014.

Í stað þess að kennari leiði nemendur er áherslan á umræður í hópum og skoðanaskiptum í umsjón sérþjálfaðra starfsmanna ATV.

„Fyrstu viðbrögðin voru neikvæð að hluta til meðal...sumra móttökustöðvastarfsmanna sem vildu verja hælisleitendurna. Þeir höfðu áhyggjur af því að verkefnið myndi vekja fordóma,“ segir Isdal.

„En hælisleitendunum sjálfum fannst þessir umræðuhópar mjög hjálplegir.“

Norsk innflytjendayfirvöld eiga enn eftir að taka ákvörðun um hvort umræðuhóparnir verði gerðir hluti af kynningu til hælisleitenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina