Drambið varð „El Chapo“ að falli

Joaquin „El Chapo“ Guzman.
Joaquin „El Chapo“ Guzman. AFP

Eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman er stundum kallaður „Guð ganganna“ vegna einstakra hæfileika sinna til gangnagerðar og eflaust er hann stoltur af þeim titli, hafandi brotist ekki bara einu sinni heldur tvisvar út úr fangelsi með því að grafa göng.

Drambið, eða hugsanlega græðgin, varð Guzman hinsvegar að falli þegar hann var handtekinn á ný í vikunni. Ríkissaksóknari Mexíkó, Aroly Gomez, greindi fjölmiðlum frá því að fundir lögfræðinga Guzman við kvikmyndaframleiðendur og leikkonur hefðu leitt til handtökunnar. Guzman vildi nefnilega að gerð yrði kvikmynd byggð á ævi hans.

Guzman slapp fyrir sex mánuðum síðan úr öryggisfangelsi í gegnum um 1,5 km löng göng sem innihéldu ljós og súrefnistanka. Göngin þóttu afar stæðileg og vöktu upp spurningar um hugsanlega þátttöku stjórnvalda og ýmsar samsæriskenningar.

Flótti El Chapo var innblásturinn að skáldsögunni The Cartel eftir Don Winslow sem birtast mun á hvíta tjaldinu í leikstjórn Ridley Scott. Þá verður mexíkóska kvikmyndin El Chapo, El Escape del Sigló (Chapo: Flótti aldarinnar) frumsýnd í þarlendum kvikmyndahúsum í næstu viku.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá Guzman hverfa ofan í jörðina í klefa sínum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert