Sean Penn tók viðtal við „El Chapo“

Joaquin
Joaquin "El Chapo" Guzman. AFP

Hollywood leikarinn Sean Penn tók viðtal við eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman á leynilegum stað í regnskógum Mexíkó stuttu eftir að hann braust út úr öryggisfangelsinu Altiplano. Viðtal Penn við Guzman birtist í Rolling Stone í dag en Guzman var tekinn höndum á ný á föstudag. Í gær var greint frá því að umleitanir Guzman í kvikmyndabransanum hefðu orðið honum að falli en samkvæmt BBC segja ónefndir opinberir starfsmenn í Mexíkó að fundur hans við Penn hafi leitt þá á slóðir „El Chapo“.

Guzman tókst að flýja í gegnum göng sem innihéldu bæði ljós og öryggiskúta og var það í annað sinn sem hann notar göng til að komast úr fangelsi. Er hann þekktur sem „Guð ganganna“.

Penn hitti Guzman og borðaði með honum kvöldmat. Við kvöldverðarborðið segir Penn að hann hafi m.a. spurt Guzman um Donald Trump og við það hafi Guzman æpt upp fyrir sig „Ah! Mi amigo!“

Þá hafi hann einnig sagst sjá fyrir meira heróíni, amfetamíni, kókaíni og marijúana en nokkur annar í heiminum. Kvaðst hann jafnframt hafa hitt annan þekktan eiturlyfjabarón, Pablo Escobar og sagðist tala reglulega við móður sína.

Viðtalið sjálft þurfti Penn hinsvegar að taka með því að senda spurningar og fékk hann loks svör við þeim í formi myndbandsupptöku. Á vef Rolling Stone má sjá upptöku af hluta viðtalsins. Tekur Guzman fram í upphafi viðtalsins að það sé eign Penn og mexíkósku leikkonunnar Kate del Castillo sem kom á fundi þeirra. 

Hollywood leikarinn Sean Penn.
Hollywood leikarinn Sean Penn. AFP

„Allt var fullkomið“

Í viðtalinu segir Guzman frá því hvernig hann byrjaði í eiturlyfjageiranum. Segir hann atvinnutækifæri hafa verið fá og að eina leiðin til að fá mat hafi verið að rækta marijuana. 15 ára gamall hafi hann hafið slíka rækt og sölu. 18 ára hafi hann byrjað að ferðast til borga í Mexíkó til að selja vörur sínar en aldrei án þess að koma aftur á búlið sitt, La Tuna, inn á milli og hitta móður sína. Segir hann rekstur eiturlyfjahrings síns lítið hafa breyst á meðan hann sat í fangelsi.

Er það satt sem þeir segja að eiturlyf geri út af við mannkynið og valdi eyðileggingu?

„Það að eiturlyf eyðileggi er raunveruleiki. Því miður, eins og ég sagði, ólst ég upp þar sem engir aðrir möguleikar voru og eru til að lifa af, engin leið til að vinna í efnahag okkar og geta átt sér til hnífs og skeiðar.“

Telurðu að það sé satt að þú berir ábyrgð á því hversu margir í heiminum eru háðir eiturlyfjum?

„Nei, það er rangt, því þann dag sem ég er ekki til lengur mun það ekki minnka á nokkurn hátt.“

Guzman segist í viðtalinu ekki líta á sig sem ofbeldisfulla manneskju og segir ofbeldi tengt við geirann að mörgu leiti koma til vegna vandamála í uppvexti einstaklinga sem tengjast honum. Segist hann aldrei stofna til ofbeldis og það eina sem hann geri sé að verja sjálfan sig þegar honum er ógnað. Aðspurður um tengsl framboðs og eftirspurnar segir hann:

„Ef það væri engin neysla, væru engar sölur. Það er satt að neyslan, stækkar og stækkar, dag eftir dag. Svo það selst og selst.“

Sjálfur segist hann aðeins hafa prófað fíkniefni fyrir mörgum árum og að hann sé ekki fíkill.

Vegna nýlegs flótta þíns, sóttist þú eftir frelsi hvað sem það kostaði, á kostnað einhvers annars?

 „Ég hugsaði aldrei um að skaða neinn. Allt sem ég gerði var að biðja Guð og hlutirnir gengu upp. Allt var fullkomið. Ég er hér, guði sé lof.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert