Pólitískur vilji til að finna lausn aldrei minni

Sýrlenskur drengur heldur á fórnarlambi loftárásar í bænum Hamouria.
Sýrlenskur drengur heldur á fórnarlambi loftárásar í bænum Hamouria. AFP

Helsta ástæða þess að Sýrlendingar flýja heimili sín í dag er vegna þess að þeir hafa einfaldlega misst vonina á því að ástandið verði betra. Þetta kom fram í erindi Martin Hartberg, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda hjá NRC, á fundi í fundaröð Há­skóla Íslands, Fræði og fjöl­menn­ing, sem fram fór í dag. Sýr­land og flótta­menn voru viðfangs­efni fund­ar­ins sem var hald­inn í sam­starfi við ís­lenska ut­an­rík­is­ráðuneytið og full­trúa frá alþjóðlegu, frjálsu fé­laga­sam­tök­un­um Norweg­i­an Refu­gee Council (NRC).

Fyrri frétt mbl.is: Veit af vilja innan samfélagsins

Hartberg starfar fyrir NRC í Líbanon og segir það hafa verið áfall að koma þaðan til Evrópu og sjá umræðuna um flóttamenn og hælisleitendur. „Hræðsla er eina orðið sem á við,“ sagði Hartberg og sagði það áhugavert að þjóðir eins og Svíar og Danir hafi kallað eftir auknu landamæraeftirliti. Sagðist Hartberg efast um að sú nálgun virki þar sem staðreyndin er sú að stór hluti flóttamanna yfirgefur heimili sín því þeir sjá ekkert annað í stöðunni.

Martin Hartberg er sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda hjá NRC
Martin Hartberg er sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda hjá NRC Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Helsta ástæða þess að svona margir yfirgefa heimili sín í Sýrlandi er einfaldlega sín að þau hafa misst vonina eftir tæplega fimm ára stríð, fólk er orðið örvæntingafullt,“ sagði Hartberg.

Bætti hann við að það gætu ekki allir flúið og nefndi svæði sem setið er um, ýmist af stjórnarhernum eða uppreisnarmönnum. „Þau geta ekki flúið og geta ekki leitað verndar,“ sagði Hartberg og bætti við að fjórar milljónir Sýrlendinga búi á svæðum þar sem erfitt er að koma neyðarbirgðum. „Vandinn er stór og verður aðeins stærri.“

Heil kynslóð sem fær ekki menntun

Af þeim Sýrlendingum sem eru á flótta er um helmingur þeirra börn. „Framtíð Sýrlands lítur hræðilega út. Þarna er heil kynslóð sem fær í fyrsta lagi ekki menntun því þau eru á flótta en svo tilheyra þau hópi ungra araba sem er næstum því alltaf litið á í neikvæðu ljósi. Litið er á þá sem mögulega hryðjuverkamenn og vandræðagemsa. Börnin eru framtíðin og það eru þau sem þurfa að endurbyggja Sýrland,“ sagði Hartberg. „Helmingur þeirra flóttamanna sem komið hafa frá Sýrlandi til Jórdaníu voru í háskóla en þurftu að hætta. Nú eru þau neydd til að búa í nágrannalöndum Sýrlands við mikla fátækt eða reyna að komast til Evrópu.“

Sýrlensk börn í flóttamannabúðum nálægt Damaskus. Heil kynslóð barna frá …
Sýrlensk börn í flóttamannabúðum nálægt Damaskus. Heil kynslóð barna frá Sýrlandi eru á flótta. Mörg þeirra hafa ekki gengið í skóla í mörg ár. AFP

Bætti hann við að flóttamenn vilji vinna og leggja sitt af mörkum hvar sem þau enda. Að sögn Hartberg er margt sem bendir til þess að flóttamenn geti bætt efnahaginn í þeim löndum sem taka á móti þeim.

Enginn pólitískur vilji til staðar

Við lok erindis Hartberg gafst færi á að spyrja spurninga. Þingkonan Elín Hirst var meðal þeirra sem nýttu sér það og spurði hvort það væri ekki mikilvægast að reyna að finna lausn á deilunni í Sýrlandi. „Við vitum öll að þau vilja ekki þurfa að flýja til annarra landa,“ sagði Elín meðal annars. Hartberg sagði að það væri algjörlega það mikilvægasta í þessu og að helstu ástæður flóttans frá Sýrlandi er sú staðreynd að stjórnmálamenn hafi lítið sem ekkert gert til að takast á við vandann. Fólkið missir vonina. „Þau segja alla réttu hlutina, að það sé ekki hægt að leysa deiluna með stríðsátökum, samt aukast átökin. Það hefur enginn alvöru pólitískur vilji verið til staðar eða framför orðið í málinu,“ sagði Hartberg.

Næstur í pontu var Arvinn E. Gadgil, yfirmaður samstarfs- og stefnumáladeildar hjá NRC. Hann byrjaði erindi sitt á því að segja flóttamannavandinn væri áskorun kynslóðanna sem væri ekki á förum. Talaði hann um að síðasta ár hafi verið slæmt og sagðist efa um að 2016 yrði eitthvað betra.

Benti hann á að flóttamannavandinn væri ekki aðeins í Sýrlandi og nágrannaríkjum. Nefndi hann  hryðjuverkasamtökin Boko Haram en þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín vegna árása þeirra. Gæti sú tala náð upp í milljón á þessu ári að mati Gadgil. „Það er engin ástæða til þess að vera jákvæður,“ sagði Gadgil.

Arvinn E. Gadgil ræðir við áheyrendur.
Arvinn E. Gadgil ræðir við áheyrendur. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Nefndi hann einnig að ástandið væri slæmt í löndum eins og Líbýu, Suður-Súdan og Jemen.

„Þetta fer ekki í burtu. Við þurfum stöðugt að horfast í augu við óstöðugleika um allan heim. Ég held að 2016 verði stærsta próf sem heimurinn hefur þurft að fara í,“ sagði hann.

„Við getum ekki sætt okkur við þetta“

Að sögn Gadgil standa mannúðarsamtök í Sýrlandi frammi fyrir þremur vandamálum, það eru stjórnmál, peningar og þær reglur sem gera Sýrlendingum erfitt fyrir að komast yfir landamæri. Gagnrýndi hann einnig nýjar landamærareglur í Svíþjóð.

„Pólitískur vilji til þess að finna lausn á vandanum í Sýrlandi hefur aldrei verið minni,“ sagði Gadgil. „Stjórnmálamennirnir okkar eru ekki að vinna vinnuna sína, hvernig eru þetta orðin fimm ár?“ spurði hann. „Við getum ekki sætt okkur við þetta.“

Maður reiðir hjól sitt nálægt braki og brennandi bílum sem …
Maður reiðir hjól sitt nálægt braki og brennandi bílum sem urðu fyrir loftárás í sýrlenska bænum Hamouria í desember. "Hvernig getum við sætt okkur við þetta?" spurði Gadgil. AFP

Eini lykillinn til þess að stöðva stríðið er pólitísk lausn, ekkert annað að sögn Gadgil. „Mannúðarsamtök setja plástur á sárið. Það er mikilvægur plástur en ekki mikið meira.“

Snýst ekki um að velja hliðar

Að sögn Gadgil hafa mannúðarsamtök aldrei áður þurft meiri peninga og aldrei áður hefur bilið á milli fjárhæðarinnar sem ríkustu ríki heims gefa og fjárhæðarinnar sem þau gætu gefið verið stærra. Að mati Gadgil þarf að auka við fjármagn til mannúðasamtaka sem fyrst, annars verður vandamálið verra.

Bætti hann við að mannúðasamtök standi frammi fyrir þeim vanda að með auknum fordómum gegn flóttamönnum og minnkandi skilningi er minna um styrki. „Hlutverk mannúðasamtaka er að vera hlutlaus,“ sagði Gadgil. „Þetta snýst ekki um að velja hliðar heldur um að aðstoða þar sem neyðin er mest.“

Fjölmargir mættu á fundinn sem var í hádeginu og var …
Fjölmargir mættu á fundinn sem var í hádeginu og var setið í hverju sæti. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert