Ráðast í fordæmalausa rannsókn

Fólk safnaðist saman í Varsjá um helgina til að mótmæla …
Fólk safnaðist saman í Varsjá um helgina til að mótmæla nýjum fjölmiðlalögum. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið rannsókn vegna nýlegrar lagasetningar í Póllandi, þar sem kveðið er á um breytingar á stjórnarskrárdómstól landsins. Um er að ræða fordæmalausa aðgerð af hálfu framkvæmdastjórnarinnar, sem hefur aldrei áður fyrirskipað rannsókn á löggjöf aðildarríkja.

Frétt mbl.is: Samþykkja umdeildar breytingar

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, sagði að yfirvöldum í Brussel bæri skylda til að tryggja að Evrópulöggjöfin væri höfð í heiðri í öllum aðildarríkjum sambandsins og að menn væru uggandi vegna breytinganna í Póllandi.

„Bindandi úrskurðir stjórnarskrárdómstólsins eru ekki virtir eins og sakir standa, sem ég tel vera hið alvarlegasta mál í öllum réttarríkjum,“ sagði hann.

Stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti samþykkti í síðasta mánuði að gera umfangsmiklar breytingar á dómstólnum, sem er sá æðsti í landinu. Gagnrýnendur segja að með þeim sé grafið undan eftirliti með stjórnvöldum.

Frétt mbl.is: Saka ríkisstjórnina um valdarán

Málið var til umræðu á fundi ráðamanna í Brussel í dag en Timmermans sagðist einnig hafa áhyggur af fjölmiðlaumhverfinu í Póllandi. Í síðustu viku ráku stjórnvöld stjórnendur og stjórnarmenn ríkisfjölmiðlanna, eftir að hafa komið í gegn lögum um vald stjórnvalda til að ráða í umrædd störf.

Frans Timmermans segir menn uggandi vegna breytinganna.
Frans Timmermans segir menn uggandi vegna breytinganna. AFP

Evrópuráðið hefur sagt tilhögunina „óásættanlega í raunverulegu lýðræðisríki.“

Samkvæmt Guardian getur rannsókn framkvæmdastjórnarinnar leitt til þess að Pólland verði svipt atkvæðarétti sínum innan Evrópusambandsins, en innanbúðamenn telja ólíklegt að mál þróist með þeim hætti. Þá er talið ólíklegt að Pólverjum verði úthýst úr Eurovision, líkt og sagt hefur verið frá.

Frétt mbl.is: Verður Póllandi vísað úr Eurovision?

Timmermans sagði tilgang rannsóknarinnar að kanna atriði málsins á hlutlægan hátt og koma á viðræðum við stjórnvöld í Póllandi án þess að gefa sér niðurstöðu fyrirfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert