Wällstrom óvelkomin til Ísrael

Margot Wallström á ráðstefnu í Reykjavík.
Margot Wallström á ráðstefnu í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnvöld í Ísrael segja Margo Wällstrom, utanríkisráðherra Svíþjóðar, ekki velkomna til landsins en Wällstrom hefur kallað eftir rannsókn á dauða Palestínumanna sem hafa verið drepnir í kjölfar árása á ísraelska hermenn og borgara.

Emmanuel Nahshon, talsmaður utanríkisráðuneytis Ísrael, sagði í dag að vegna ummæla Wällstrom hefði þeim skilaboðum verið komið á framfæri að hún væri ekki velkomin í landinu. Tzipi Hotovely, aðstoðarutanríkisráðherra, hefur sagt að ummæli ráðherrans endurspegli „blindu og pólitíska heimsku“.

Tuttugu og fjórir hafa látist og mun fleiri særst í hnífaárásum Palestínumanna síðustu misseri. Wällstrom sagðist í desember fordæma ofbeldið en gagnrýndi viðbrögð Ísraela. Hún benti m.a. á að mun fleiri Palestínumenn hefðu látið lífið í gagn-aðgerðum Ísraela en í árásum fyrrnefndu.

Samkvæmt Guardian hefur 141 Palestínumaður látið lífið af höndum ísraelskra yfirvalda, sem segja tvo þriðjuhluta þeirra hafa verið árásarmenn. Aðrir hafi látið lífið í átökum við öryggissveitir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Wällstrom veldur fjaðrafoki á erlendri grundu en sendiherra Sádi Arabíu í Svíþjóð var kallaður heim eftir að hún gagnrýndi stöðu mannréttindamála í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert