95 ára ákærður fyrir 3.681 morð

Auschwitz-Birkenau
Auschwitz-Birkenau AFP

95 ára gamall fyrrverandi læknir við Auschwitz útrýmingarbúðirnar er ákærður fyrir aðild að morðum á 3.681 fanga á einum mánuði árið 1944. Réttarhöldin yfir honum hefjast 29. febrúar, að sögn þýskra saksóknara.

Hubert Zafke starfaði sem læknir í búðunum frá 15. ágúst 1944 til 14. september það sama ár. Á þeim tíma komu þangað 14 járnbrautarlestar með fanga, þar á meðal Önnu Frank, sem skrifaði dagbók um líf sitt í felum þangað til hún var send í búðirnar.

Samkvæmt ákæru saksóknara vissi Zafke til hvers Auschwits-Birkenau búðirnar væru og hvernig þær væru uppbyggðar. Með vissu sinni þá studdi Hubert Zafke það sem fram fór og því  var hann þátttakandi í útrýmingunni, segir saksóknari í ákæru sinni. 

Réttarhöldin munu fara fram í Neubrandenburg en áfrýjunardómstóll hefur snúið við niðurstöðu undirréttar um að Zafke væri of veikburða til þess að koma fyrir dóm. Hins vegar verður gerð krafa um að réttarhöldin standi ekki lengi hvern dag og að þess verði gætt að hann eigi kost á læknisþjónustu í réttarsalnum. Þýskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Zafke þjáist af elliglöpum.

Alls hvarf 1,1 milljón manna, flestir evrópskir gyðingar á tímabilinu 1940 til 1945 í Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðunum áður en þær voru frelsaðar af hersveitum Sovétríkjanna.

Anna Frank, sem kom til Auschwitz ásamt foreldrum og systur, var síðar flutt til Bergen-Belsen en þar lést hún í mars 1945.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert