Erfitt ár fyrir Evrópusambandið

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, sagði við blaðamenn í Brussel á föstudaginnað árið framundan yrði sambandinu erfiðara en síðasta ár. Það myndi jafnvel standa frammi fyrir meiri vandamálum en áður. Hins vegar væri rangt að hugmyndin um Evrópusambandið væri búin að vera.

Haft er eftir Juncker á fréttavefnum EUobserver.com að hann gerir sér engar grillur varðandi árið sem er nýhafið. Allt verði erfitt. „Fjöldi óleystra mála hefur verið að hrúgast upp. Ég er viss um að fleiri vandamál bætast á listann,“ sagði forsetinn og nefndi sem dæmi fyrirhugað þjóðaratkvæði í Bretlandi um veru landsins í Evrópusambandinu.

Fram kemur í fréttinni að Juncker hafi haldið rúmlega klukkustundar erindi fyrir framan blaðamenn. Hann hafi ekki sagt eins marga brandara og venjulega og hafi ekki tekið því sérlega vel að vera ljósmyndaður. En þrátt fyrir fremur neikvæðan tón hafi hann lagt áherslu á að hægt væri að leysa vandamál Evrópusambandsins.

„Ég ætla ekki að gefast upp. Ég hafna þeirri hugmynd að þetta sé á einhvern hátt upphafið að endalokunum,“ sagði Juncker. Lagði hann ennfremur áherslu á mikilvægi þess að tryggja áframhaldandi tilvist Schengen-svæðisins og tók undir með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að Evrópusambandið í heild væri að veði í þeim efnum.

„Á frelsis evrópskra ríkisborgara til að ferðast er ekkert vit í evrunni,“ sagði Juncker. „Ef einhver vill drepa Schengen þá munu þeir þegar upp er staðið drepa innri markað [Evrópusambandsins] líka.“ Það yrði dýrt ef ríki Evópusambandsins tækju öll upp landamæraeftirlit. Varðandi Bretland sagðist hann bjartsýnn á að ná samkomulagi um breytingar á veru Breta í sambandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert