„Pútín samþykkti morðið“

Alexander Litvinenko á sjúkrahúsinu eftir að áhrif eitrunarinnar fóru að ...
Alexander Litvinenko á sjúkrahúsinu eftir að áhrif eitrunarinnar fóru að koma í ljós. mbl.is

Morðið á njósnaranum fyrrverandi Alexander Litvinenkó  var sennilega framið með samþykki Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. Þetta kemur fram í nýrri opinberri rannsókn um dauða njósnarans árið 2006.

Litvinenkó lést 23. nóvember 2006 vegna eitrunar af völdum geislavirkni. Tveir Rússar, Andrej Lúgovoj og Dmitrí Kovtun, eru grunaðir um verknaðinn en rússnesk yfirvöld hafa alltaf neitað að framselja þá. Kom í ljós við krufningu að Litvinenkó hafði neytt geislavirka efnisins pólóníum-210. Er talið að hann hafi drukkið grænt te sem búið var að setja efnið út í, en leifar af efninu fundust á sushi-veitingastað þar sem Litvinenkó hitti þá Lúgovoj og Kovtun hinn 1. nóvember 2006. Í  gögnum sem komu fram fyrir ári síðan kom fram að leifar af pólóníum-210 hefðu einnig fundist á öðrum stað, þar sem þremenningarnir hittust tveimur vikum fyrr.

Gömul mynd af Alexander Litvinenkó
Gömul mynd af Alexander Litvinenkó AFP

Alexander Litvinenkó var þekktur fyrir gagnrýni sína á rússnesk stjórnvöld og er talið að niðurstaða skýrslu Roberts Owens, dómara á eftirlaunum sem birt var í morgun verði til þes að bresk yfirvöld auki þrýsting á rússnesk stjórnvöld í málinu. Skýrslunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en hún er alls 328 blaðsíður að lengd.

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, mun fljótlega kynna fyrir þinginu hvaða aðgerðir ríkisstjórn Bretlands muni grípa til í ljósi niðurstöðu skýrslunnar.

Marina Litvinenkó, ekkja njósnarans fyrrverandi
Marina Litvinenkó, ekkja njósnarans fyrrverandi AFP

Annar þeirra þingmaður í dag

„Aðgerð FSB (rússneska leyniþjónustan) um að myrða Litvinenkó var sennilega samþykkt af herra (Nikolai) Patrushev og einnig Pútín forseta,“ segir í skýrslunni. 

Patrushev er fyrrverandi yfirmaður FSB, sem tók við af sovésku leyniþjónustunni KGB. Hann hefur gegnt embætti ráðherra öryggismála frá árinu 2008.

„Ég er sannfærður um að herra Lugovoi og herra Kovtun komu pólóníum-210 fyrir í tekönnu á Pin Bar 1. nóvember 2006,“ segir Owen, sem hafði yfirumsjón með vinnslu skýrslunnar.

Anatolí Litvinenkó með móður sinni Marinu.
Anatolí Litvinenkó með móður sinni Marinu. AFP

„Ég er sannfærður að þeir gerðu þetta með það að markmiði að eitra fyrir herra Litvinenkó.“

Owen segir að jafnvel áður en vitnaleiðslur  hófust í fyrra þá hafi hann trúað því að sakar-ábyrgðin (prima facie case) hafi verið hjá rússneska ríkinu.

Lugovoi, sem nú er þingmaður í Rússlandi, lýsir niðurstöðum skýrslunnar um hann sjálfan sem fáránlegum.

„Niðurstöður rannsóknar sem voru gerðar opinberar í dag staðfesta enn einu sinni andúð Bretlands í garð Rússlands,“ segir Lugovoi í viðtali við rússnesku fréttastofuna Interfax í dag. Hann segir vonlaust að fá Breta til þess að komast að hinu sanna varðandi dauða Litvinenkós.

Rússland hefur fordæmt rannsóknina og telur að hún sé undir pólitískum áhrifum, segir talsmaður forseta Rússlands, Dmitry Peskov. Hann segir að þetta mál sé ekki eitt af þeim málum sem rússnesk yfirvöld hafi áhuga á.

Marina Litvinenkó, Anatolí Litvinenkó sjást hér koma í dómsmálaráðuneytið í ...
Marina Litvinenkó, Anatolí Litvinenkó sjást hér koma í dómsmálaráðuneytið í London í morgun. AFP

Vill láta banna Pútín að koma til Bretlands

Ekkja Litvinekós, Marina, sem lengi hefur barist fyrir því að rannsókn yrði gerð á dauða eiginmanns sínum, hvetur bresk yfirvöld til þess að leggja refsiaðgerðir á Rússland vegna þessa. Eins að Pútín verði bannað að koma til landsins. Sonur hennar, Anatoly, sem var tólf ára þegar faðir hans var myrtur, segir í viðtali við BBC að það sé á ábyrgð ríkisins að komast að því hver stóð á bak við morðið, hver skipulagði það og stýrði.

Ásakanir eru um að einnig hafi verið eitrað fyrir Litvinenkó á bar Millenium hótelsins en þar drakk hann tebolla. Þar hafi einnig verið notað sama eitur en það er gríðarlega geislavirkt og ekki hægt að nálgast það nema í kjarnorkuverum. 

Í skýrslu Owens kemur fram að sú staðreynd að pólóníum-210 var notað til þess að myrða hann bendi til þess að Lugovoi og Kovtun hafi verið á vegum ríkisins heldur en glæpasamtaka. 

Mynd tekin 14. september 2004 af Alexander Litvinenkó
Mynd tekin 14. september 2004 af Alexander Litvinenkó AFP

Kalda stríðið vaknar til lífsins

Eftir að hafa hætt hjá KGB fór Litvinenkó að starfa sem lausamaður og vann meðal annars fyrir bresku leyniþjónustuna, MI5. Hann sakaði Pútín opinberlega um að hafa fyrirskipað drápið á sér þremur vikum fyrir andlátið 23. nóvember 2006. Málið vakti gríðarlega athygli enda ekki á hverjum degi sem spennusaga sem minnir á tíma kalda stríðsins gerist á 21. öldinni.

Bresk yfirvöld tilkynntu um rannsóknina í júlí 2014, nokkrum dögum eftir að malasísk farþegaþota var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu en Rússar voru strax bendlaðir við atburðinn. Álitu ýmsir að með rannsókninni væru Bretar að hefna sín á Rússum. 

 Árið 1998 hélt Litvinenkó ásamt fleiri njósnurum FSB blaðamannafund í Moskvu þar sem þeir sökuðu leyniþjónustuna um að hafa skipulagt morð á  Boris Berezovskí, auðjöfri sem studdi Vladimír Pútín til valda á sínum tíma en snérist síðar gegn honum. Boris Berezovskí var einn af fyrstu „ólígörkunum“ en hann lagði grunninn að viðskiptaveldi sínu þegar hann komst yfir einkaleyfi til að selja Lada-bifreiðar. 

Hann var síðar ákærður fyrir að misnota vald sitt og þrátt fyrir að hafa verið sýknaður árið 1999 flúði hann Rússland, gegnum Georgíu og Tyrkland með fölsuðu vegabréfi. 

Berezovskí fékk síðar hæli í Bretlandi og varð breskur þegn síðar. Eftir að hann vingaðist við leiðtoga aðskilnaðarsinna Tsjetsjeníu snérist hann til íslam og er jarðsettur í kirkjugarði í London að hætti múslíma. Kistan er sérstaklega útbúin til þess að koma í veg fyrir leka á geislavirkum efnum en Berezovskí fannst látinn á heimili sínu árið 2013.

Í frétt Morgunblaðsins eftir dauða hans árið 2013 kom fram að skaðlegra efna var leitað á heimili hins látna sem skýrt gætu andlátið en við leitina var m.a. notast við aðstoð sérfræðinga í geislavirkni, efna- og sýklavopnum. 

Fljótlega eftir að upp komst um andlátið fór á kreik orðrómur um að auðkýfingurinn hefði svipt sig lífi sökum meints þunglyndis. Þessu hefur Demyan Kudryvtsev, einn af vinum hins látna, hafnað með öllu en haft er eftir honum í erlendum fjölmiðlum að engin ummerki hafi fundist um sjálfsvíg. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

L helgafell 6018031419 iv/v
Félagsstarf
? HELGAFELL 6018011019 VI Mynd af au...
Eldri borgarar
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9 og g...
Aflagrandi 40 opin vinnustofa kl 9 og j
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9 og j...
Hádegisfundur
Fundir - mannfagnaðir
ses.xd.is Samtök eldri sjálfstæði...