Michael Caine vill úr Evrópusambandinu

Micahel Caine.
Micahel Caine. AFP

Breski kvikmyndaleikarinn og Óskarsverðlaunahafinn Michael Caine lýsti því yfir í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að hann væri hlynntur því að Bretar yfirgefi Evrópusambandið. Gagnrýndi hann harðlega andlitslausa embættismenn sambandsins sem tækju ákvarðanir fyrir Bretland samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Fram kemur í fréttinni að Caine, sem meðal annars er þekktur fyrir kvikmyndir á borð við The Italian Job og Zulu, hafi sagt að hann væri orðinn nokkuð sannfærður um að hagsmunum Breta væri best borgið utan Evrópusambandsins. Hann vísaði á bug fullyrðingum um að Bretland yrði fyrir efnahagslegum skakkaföllum utan sambandsins. Bretar myndu vinna hörðum höndum að því að lífið utan Evrópusambandsins yrði gott.

Yfirlýsing Caines er sögð hvalreki fyrir hreyfingu þeirra sem vilja Breta úr Evrópusambandinu enda hafi hún að undanförnu hvatt þekkta einstaklinga í bresku þjóðfélagi utan stjórnmálastéttarinnar til þess að stíga fram og taka afstöðu með því að Bretar yfirgefi sambandið. Til þessa hafi það ekki skilað miklum árangri.

Þjóðaratkvæði hefur verið boðað í Bretlandi fyrir árslok 2017 um veru Bretlands í Evrópusambandinu. Hugsanlegt er talið að kosningin fari fram á þessu ári.

mbl.is