Gaf sig fram við lögreglu eftir viku á flótta

Bac Duong er í miðjunni.
Bac Duong er í miðjunni. AFP

Einn fanganna þriggja sem sluppu úr fangelsi í Suður-Kaliforníu fyrir viku síðan gaf sig fram við lögreglu í dag. Hinna er enn leitað. Maðurinn heitir Bac Duong og gaf hann sig fram við borgara í borginni Santa Ana í dag og bað hann um að hafa samband við lögreglu.

Duong og tveir aðrir fangar, Hossein Nayeri og Jonathan Tieu sluppu úr öryggisfangelsi í Orange County með því að saga í gegn­um járnrimla áður en þeir komust inn í skólprör fang­els­is­ins. Þar skriðu þeir stutt­an spöl áður en þeir komust út upp á þakið. Þaðan renndu þeir sér niður með reipi sem þeir höfðu út­búið úr sæng­ur­föt­um.

Fyrri frétt mbl.is: Struku úr fang­elsi með æv­in­týra­leg­um hætti

Kennari í fangelsinu, Nooshafarin Ravaghi, var handtekinn í gær og ákærð fyrir að hafa afhent Nayeri myndir frá Google Earth sem sýni svæðið í kringum fangelsið. Ravaghi kenndi ensku í fangelsinu og hafði átt í einhverskonar sambandi við Nayeri. Ekki liggur fyrir hvort hún hafi vitað um áætlanir mannanna um að flýja.

Ekki er heldur vitað hvort að samband þeirra Ravaghi og Nayeri hafi verið rómantískt en þau gætu hafa skrifast á. „Við vitum að samband þeirra var mun nánara og persónulegra en það átti að vera,“ sagði lögreglumaðurinn Sandra Hutchens á blaðamannafundi.

Ravaghi neitar að hafa komið með verkfæri inn í fangelsið en þau sem fangarnir notuðu til að sleppa eru ófundin. Af föngunum þremur hafði Duong verið styst í fangelsinu en hann kom þangað í desember. Hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps eftir að hann skaut mann í Santa Ana í nóvember. Tieu hafði verið í fangelsinu síðan í desember 2013 en hann var ákærður fyrir morð og tilraun til manndráps. Nayeri hafði verið í fangelsinu frá árinu 2014.

Frétt NBC.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert