Mótmæltu réttindum samkynhneigðra

Þúsundir manna söfnuðust saman í Róm í gær til þess að mótmæla nýju lagafrumvarpi sem viðurkennir samkynhneigð pör og veitir þeim rétt til þess að ættleiða. Mótmælendurnir komu frá öllu landinu til þess að taka þátt í svokölluðum „Fjölskyldudegi“ og mátti þar m.a. sjá kaþólska presta dansa „kóngadansinn“ samkvæmt frétt BBC.Umræða um frumvarpið hófst á ítalska þinginu í síðustu viku og mun vera kosið um það í febrúar. Ítalía er síðasta vestræna ríkið sem hefur ekki viðurkennt samkynhneigð pör með lögum.

Mótmælin fóru fram í Circus Maximus hringleikahúsinu og báru mótmælendur skilti sem á stóð m.a. „Það er rangt þó það verði löglegt.“

„Þessi sambönd verða auðveldlega til en hrynja líka auðveldlega,“ sagði einn mótmælandi. „Okkur finnst fjölskyldan eiga sér mikið gildi og þessi lög geta eyðilagt það.“

Ákvæði í lögunum, sem myndi leyfa samkynhneigðum að ættleiða líffræðileg börn maka þeirra hefur verið sértaklega gagnrýnt. „Hefðbundin fjölskylda samanstendur af karli og konu. Við viljum ekki taka þann rétt af börnum að eiga faðir og móður,“ sagði annar mótmælandi.

Að sögn skipuleggjenda mættu um tvær  milljónir manna á staðinn. Fjölmiðlar á staðnum hafa þó dregið úr því og sagt að um 300.000 hafi tekið þátt.  

mbl.is

Bloggað um fréttina