Fleiri Bretar vilja úr Evrópusambandinu

mbl.is/Hjörtur

Fleiri Bretar vilja ganga úr Evrópusambandinu ef marka má nýja skoðanakönnun fyrirtækisins YouGov en þeir sem vilja vera þar áfram eða 42% á móti 38%. Fram kemur í frétt Reuters að um sé að ræða mesta forskot andstæðinga veru Bretlands í sambandinu sem mælst hafi til þessa í könnunum fyrirtækisins síðan í október 2014.

Þjóðaratkvæði er fyrirhugað í Bretlandi um veru landsins í Evrópusambandinu og þurfa bresk stjórnvöld að halda það fyrir árslok 2017. Stefnt er hins vegar að því að kosningin fari fram síðar á þessu ári og jafnvel strax í sumar. Viðræður hafa staðið yfir á milli ríkisstjórnar Bretlands og Evrópusambandsins um breyttar forsendur veru Breta í sambandinu og þegar samkomulag liggur fyrir verður endanlega boðað til þjóðaratkvæðisins þar sem kosið verði á milli þess að vera áfram í ESB á breyttum skilmálum eða segja alfarið skilið við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert