SS menn dregnir til ábyrgðar

Réttarhöld yfir tveimur fyrrverandi SS mönnum sem sakaðir eru um aðild að morðum á þúsundum fanga í Auschwitz hefjast síðar í mánuðinum.

Reinhold Hanning, 93 ára, verður dreginn fyrir rétt í bænum Detmold á fimmtudag en hann er ákærður fyrir aðild að dauða 170 þúsund manns þegar hann starfaði sem fangavörður í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz.

Hubert Zafke, 95 ára, þarf að svara til saka vegna dauða 3.681 fanga, þar á meðal Önnu Frank, sem þekkt er fyrir dagbókarskrif sín. Réttarhöldin yfir honum hefjast í Neubrandenburg 29. febrúar en Zafke var sjúkraliði í búðunum á þeim tíma sem fjölmargir gyðingar voru fluttir í Auschwitz-Birkenau búðirnar þar sem stór hluti fanganna endaði ævina í gasklefum. 

Ein þeirra sem lifði helförina af, Angela Orosz, mun bera vitni við réttarhöldin en hún segir í viðtali við AFP fréttastofuna að allt starfsfólk fangabúðanna hafi verið hluti af drápsvél sem þar starfaði.

„Án þessa fólks og virks stuðnings þeirra við helförina hefðu þeir atburðir sem áttu sér stað í  Auschwitz aldrei gerst. Morð á 1,1 milljón manna á aðeins nokkrum árum. Margir af ættingjum mínum væru jafnvel enn á lífi í dag,“ segir Orosz sem fæddist í Auschwitz rúmum mánuði eftir að búðirnar voru frelsaðar 27. janúar árið 1945.

Mennirnir eiga yfir höfði sér á milli þriggja til fimmtán ára fangelsi. En miðað við aldur þeirra er ólíklegt að þeim verði gert að afplána dóma verði þeir dæmdir til vistunar í fangelsi.

En saksóknari, Andreas Brendel, segir að Þýskaland skuldi fórnarlömbum og ættingjum þeirra það að glæpamenn þriðja ríkisins verði saksóttir fyrir verk sín. „Aldurinn skiptir mig ekki máli,“ segir hann og Ronald Lauder, forseti heimssambands gyðinga er á sama máli.

Hann segir að þeir sem beri ábyrgð á voðaverkum helfararinnar sem enn eru á lífi eigi að svara til saka fyrir dómstólum. „Svo lengi sem það er mögulegt að draga þá fyrir dóm þá á að gera það,“ segir Lauder.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert