NATO sendir herskip í Eyjahaf

Atlantshafsbandalagið er að senda herskip í Eyjahaf til þess að fylgjast með og grípa til aðgerða gegn smyglurum. Fleiri hundruð flóttamenn hafa drukknað á leiðinni yfir Eyjahaf það sem af er ári. Þetta er í fyrsta skipti sem NATO tekur þátt í aðgerð sem þessari.

Tvítugum Sýrlendingi bjargað frá drukknum af tyrknesku strandgæslunni fyrr í …
Tvítugum Sýrlendingi bjargað frá drukknum af tyrknesku strandgæslunni fyrr í vikunni. AFP

Að sögn framkvæmdastjóra NATO, Jens Stoltenberg, eru það aðildarlönd NATO, Þýskaland, Grikkland og Tyrkland, sem leituðu til bandalagsins um aðstoð við að takast á við flóttamannavandann sem er sá mesti í álfunni frá því í seinni heimstyrjöldinni.

AFP

Stoltenberg ræddi við fjölmiðla eftir að varnarmálaráðherrar NATO ríkjanna samþykktu aðgerðina í morgun og segir hann að NATO muni senda herskip af stað strax í dag. 

Þrjú herskip verða send af stað en þau eru öll undir stjórn Þjóðverja. Að sögn Stoltenberg er flóttamannastraumurinn, sem helst má rekja til átaka í Sýrlandi og annars staðar í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, að verða meiriháttar ógn við öryggi ríkjanna 28 sem eru innan NATO.

„Þetta snýst ekki um að stöðva og reka aftur (báta flóttafólks)... heldur um að grípa til mikilvægrar öryggisgæslu svo hægt verði að stemma stigu við smygli á fólki og starfsemi glæpahringja,“ segir Stoltenberg.

AFP

Um gríðarlega stórt skref er að ræða inn á svið mannúðar fyrir NATO sem er bandalag sem var stofnað á tímum kaldastríðsins og yfirleitt grípur ekki inn nema um hernað sé að ræða. 

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, heimsótti Tyrkland á mánudag og þar var gengið frá samkomulagi um að óskað eftir aðstoð NATO á sama tíma og flóttamannastraumurinn eykst dag frá degi að landamærum Tyrklands. 

Lík 35 flóttamanna sem drukknuðu fyrr í vikunni á leið …
Lík 35 flóttamanna sem drukknuðu fyrr í vikunni á leið yfir Eyjahaf AFP

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Ashton Carter, sagði fyrr í dag að ráðherrar NATO hafi samþykkt áætlunina. Varnarmálaráðherrarnir séu samstíga í að styðja við aðgerðir á Eyjahafi og taka þátt í þeim.

Varnarmálaráðherra Þýskalands, Ursula Von der Leyen, segir að nokkur NATO ríki hafi boðið fram herskip sín til þess að taka þátt í aðgerðinni. Hún segir að það sé skýrt tekið fram við Tyrki að þeir flóttamenn sem eru stöðvaðir séu sendir aftur til Tyrklands.

Heimildir AFP herma að NATO muni senda fimm til sjö herskip í Eyjahafið. Framkvæmdastjórn ESB fagnaði ákvörðun NATO og segir að ESB muni auka við landamæra- og strandgæslu sína til þess  að taka þátt í verkefninu af fullum þunga. 

Talsamaður Jean-Claude Junckers,  Margartis Schinas, segir að ákvörðuninni sé fagnað og vonir standi til þess að með þessu verði hægt að bjarga mannslífum á Eyjahafi.

Tyrkland, sem er eina ríki NATO þar sem flestir íbúanna eru múslímar og um leið það ríki sem er með einna stærsta herinn, hefur verið viðkomustaður milljón hælisleitenda sem eru á leið til Evrópu á einu ári. Eftir komuna til Grikklands hafa flestir haldið förinni áfram til Þýskalands og annarra ríkra landa ESB. 

Í janúar fóru 70 þúsund flóttamenn yfir Eyjahafi og af þeim drukknuðu um 400. Óttast er að fleiri hundruð þúsund eigi eftir að fylgja í fótspor þeirra það sem eftir er ári. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert