Dönsku lögin „engu“ skilað

Gervipeningaseðlar og skartgripir sem mótmælendur dönsku laganna skildu eftir til …
Gervipeningaseðlar og skartgripir sem mótmælendur dönsku laganna skildu eftir til að andæfa því að verðmæti hælisleitenda væru gerð upptæk. AFP

Umdeild lög sem dönsk stjórnvöld settu um að lögregla mætti leita á hælisleitendum og gera verðmæti þeirra upptæk til að greiða fyrir uppihald þeirra virðast litlu hafa skilað, að minnsta kosti til að byrja með. Danska lögreglan segir að leitin hafi engu skilað á fyrstu ellefu dögunum.

Verðmætin má gera upptæk ef þau eru meira en 10.000 danskra króna virði og hafa ekki „tilfinningalegt gildi“, eins og segir í lögunum. Þau tóku gildi föstudaginn 5. febrúar og hafa engu skilað, að sögn talsmanns lögreglunnar. Samkvæmt dönsku útlendingastofnuninni sóttu 230 manns um hæli í landinu í síðustu viku.

Pernille Skipper, talsmaður Rauðgrænu samfylkingarinnar, segist telja að lögunum hafi aldrei verið ætlað að afla tekna til að standa undir kostnaði heldur að hræða flóttamenn frá því að sækja um hæli í Danmörku.

Talsmaður Þjóðarflokksins, sem er andsnúinn innflytjendum, segir hins vegar of snemmt að dæma lögin.

Alls sóttu 21.000 manns um hæli í Danmörku í fyrra en það er eitt hæsta hlutfall hælisleitenda miðað við höfðatölu á meðal ríkja Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert