Taka farsíma af flóttabörnum

Flóttamenn eru með farsíma líkt og flestir íbúar heimsins. Dönsk …
Flóttamenn eru með farsíma líkt og flestir íbúar heimsins. Dönsk yfirvöld taka síma af flóttabörnum til þess að kanna hvort þau séu að segja satt. AFP

Danska lögreglan hefur tekið farsíma af um 55 börnum sem eru ein á flótta á undanförnum mánuðum, að því er fram kemur í frétt Politiken.

Í lok janúar kom Ahmed, sem er 15 ára gamall, að landamærum Danmerkur og Þýskalands. Hann er einn á flótta frá Sýrlandi og er á leið til Svíþjóðar þar sem móðir hans og systir eru. En landamæraverðir stöðva för hans, tóku af honum símann og fingraför. Þaðan er hann sendur í flóttamannamiðstöð í Gribskov. Viku síðar ræðir lögreglan við hann og 5. Febrúar er hann sendur í flóttamannamiðstöð fyrir börn sem eru án fylgdar á flóttanum í Søllested á Lálandi.

Ahmed segir í samtali við Politiken að hann viti ekki hvenær hann fái síma sinn aftur. „Ég vildi gjarna fá að hafa samband við fjölskyldu mína,“ segir Ahmed í viðtalinu.

Talsmaður ríkislögreglustjóra, Richard Østerlund la Cour , segir ástæðuna fyrir því að símar flóttabarna séu teknir sé að auðvelda lögreglu að komast að því hvort þau segi rétt til sín og þjóðernis.

„Ef þú kemur til lands og segist vera frá Sýrlandi en ert ekki með nein gögn sem sanna það þá eru farsímar besta leiðin til þess að sannreyna að þú sért að segja satt eða hvers vegna öll símtöl sem þú hefur hringt úr símanum eru til Gana,“ segir hann.

Hann segir að ungmennin fái síma sína aftur eftir að lögregla hefur fengið staðfestingu á því hver þau eru. Heimildir Politiken herma að einhver ungmennanna hafi verið án síma sinna mánuðum saman og hafi ekki getað látið fjölskyldumeðlimi vita af sér.

Eftir að Politiken birti fréttina í gærmorgun höfðu þó nokkrir stjórnmálamenn samband við lögreglu og hvöttu hana til þess að hraða ferlinu. La Cour sagði í viðtali við danska ríkisútvarpið í gær að í einhverjum tilvikum séu símarnir teknir af fullorðnum hælisleitendum og þetta sé að valda því að tafir hafa orðið á að símunum sé skilað til eigenda sinna. Hann segir að þar skipti mestu sá mikli fjöldi sem hafi komið til landsins á seinni hluta síðasta árs. Yfir tvö þúsund ungmenni ein á flótta hafi sótt um hæli í Danmörku í fyrra. Árið áður voru þau 250 talsins og það var nýtt met í fjölda þeirra.

82 þúsund flóttamenn til Evrópu frá áramótum

Flótta- og farandfólk er umræðuefni funda á vegum Rauða krossins í Lundúnum í vikunni en óttast er að flóttamannavandinn eigi eftir að aukast enn frekar.

Það sem af er ári hafa 403 látist á flóttanum og 82 þúsund komið til Evrópu. Það eru fleiri en á samanlagt á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs.

 Simon Missiri, framkvæmdastjóri Alþjóðasamtaka Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) í Evrópu, segir að von sé á yfir einni milljón flóttamanna til Evrópu í ár og ekkert bendir til þess að átökum sé að ljúka í Miðausturlöndum. Því sé flóttamannavandinn rétt að  byrja. Fulltrúar frá Rauða kross hreyfingum í 33 löndum eru á fundinum í Lundúnum, þar á meðal fulltrúar Íslands.

Politiken

Danska ríkisútvarpið

Vefur Rauða krossins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert