Svíþjóðardemókratar tapa fylgi

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar,
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, AFP

Svíþjóðardemókratar, sem eru mótfallnir komu innflytjenda til landsins, mælast nú með minna fylgi en í síðustu könnun. Flokkurinn er nú þriðji stærsti flokkur Svíþjóðar samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í dag.

Í könnun Inizio sem Aftonbladet birtir í dag mælist fylgi Svíþjóðardemókrata 20,9% sem er 1,3% minna fylgi en í síðustu könnun í janúar.

Það er Jafnaðarmannaflokkurinn sem er stærstur með 24,5% fylgi og hægri flokkurinn Moderate, er með 22,4% fylgi.

Karin Nelsson, sem stýrir gerð skoðanakannana hjá Inizio, segir að stóru flokkarnir tveir hafi misst talsvert fylgi til Svíþjóðardemókrata en eitthvað af því fylgi leiti nú annað.

Innflytjendamál eru afar heitt og viðkvæmt mál í sænskri þjóðfélagsumræðu en í fyrra sóttu 163 þúsund um hæli í landinu.

Yfirvöld hafa gripið til aðgerða til þess að stemma stigu við straumnum til landsins og hafa mun færri sótt um hæli í ár en í fyrra. Talið er að um 100 þúsund muni sækja um hæli í Svíþjóð í ár.

Aftonbladet

mbl.is