ESB klýfur Íhaldsflokkinn

David Cameron forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron forsætisráðherra Bretlands. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, kynnir í breska þinginu í dag samkomulag við Evrópusambandið um breyttar forsendur fyrir veru landsins í sambandinu. Gengið var frá samkomulaginu í lok síðustu viku eftir viðræður sem stóðu yfir í nokkra mánuði.

Fram kemur í frétt AFP að Cameron vonist til þess að tryggja sér stuðning sem flestra þingmanna Íhaldsflokksins og annarra flokka sem eiga fulltrúa á þinginu í kjölfar þess að Boris Johnson, borgarstjóri London og þingmaður Íhaldsflokksins, lýsti því yfir í gær að hann ætlaði að styðja úrsögn úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fer 23. júní.

Cameron hafði hvatt Johnson til að styðja samkomulagið og er ákvörðun borgarstjórans sögð vera áfall fyrir forsætisráðherrann. Sex ráðherrar í ríkisstjórn Íhaldsflokksins hafa lýst því yfir að þeir ætli að styðja úrsögn úr Evrópusambandinu auk Johnsons. Þar á meðal Michael Gove dómsmálaráðherra og einn nánasti samstarfsmaður Camerons.

Meirihluti bresku ríkisstjórnarinnar hyggst hins vegar standa með Cameron í málinu en Íhaldsdlokkurinn er klofinn í málinu. Johnson sagði við fjölmiðla fyrir utan heimili sitt í gær, þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína, að samkomulag Camerons við Evrópusambandið hefði engar grundvallarbreytingar í för með sér á tengslum Bretlands við sambandið.

Boris Johnson, borgarstjóri London.
Boris Johnson, borgarstjóri London. AFP
mbl.is