Lét börnin krjúpa milli læra sér við skriftir

George Pell fjármálastjóri Páfagarðs
George Pell fjármálastjóri Páfagarðs AFP

Það eru óhugnanlegar upplýsingar sem hafa komið fram við rannsókn á barnaníði kaþólskra presta í Ástralíu undanfarna daga. Þar á meðal um barnaníðing og prest sem lét börn krjúpa á milli læra sér á meðan þau játuðu syndir sínar.

Fjármálastjóri Páfagarðs, George Pell kardínáli, bar vitni í gegnum myndbúnað við réttarhöldin í Syndey í Ástralíu í dag. Þar játaði hann yfirhylmingu innan kaþólsku kirkjunnar á glæpum sem framdir voru gegn börnum í Ástralíu.

Rannsóknarnefndin hlýddi á vitnisburð Pells í morgun um hvað hann vissi um þá óhugnanlegu hluti sem áttu sér stað. Rannsóknin snýr einkum að bænum Ballarat og borginni Melbourne í Viktoríu ríki þar sem Pell ólst upp og starfaði. Hvernig kirkjan tók á kvörtunum sem bárust um brot klerka allt aftur á áttunda áratug síðustu aldar.

Fórnarlömb barnaníðinga innan kaþólsku kirkjunnar
Fórnarlömb barnaníðinga innan kaþólsku kirkjunnar AFP

Einn sá óviðkunnanlegasti

Lögmaðurinn Gail Furness, sem stýrir spurningum nefndarinnar, beindi athyglinni í dag að prestinum Peter Searson í Doveton sem Pell lýsti sem einum af þeim óviðkunnanlegu mönnum sem hann hafði hitt á lífsleiðinni. Ekkert var gert á vegum kaþólsku kirkjunnar á níunda áratugnum þrátt fyrir fjölmargar sannanir á óeðlilegri framkomu hans. 

Anthony Foster og eiginkona hans Chrissie, eiga tvær dætur sem …
Anthony Foster og eiginkona hans Chrissie, eiga tvær dætur sem eru fórnarlömb barnaníðins, prests kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu. AFP


Framkoman viðbjóðsleg en ég vissi ekki neitt

Eitt fórnarlamba hans lýsti því hvernig Searson beindi skotvopni að börnum og lét börnin krjúpa á milli læra sér þegar þau skriftuðu. Pell sagði að framkoma Searson væri viðbjóðsleg en neitaði að hafa vitað af þessu á sínum tíma. Hann segir að miðað við þetta þá hefði erkibiskupinn í Melbourne, Frank Little, sem nú er látinn, átt að gera meir en raun ber vitni.

„Little erkibiskup, af einhverri ástæðu, virtist ófær eða óhæfur til þess að taka á föður Searson eða jafvel ekki hæfur til þess að afla nægjanlegra upplýsinga um ástandið,“ sagði Pell. Hann telur að líklega hafi Little ekki brugðist við til þess að vernda orðspor kirkjunnar.

Searson, sem lést árið 1989, er jafnframt sakaður um kynferðislegt ofbeldi, dráp á ketti með því að sveifla honum á rófunni yfir grindverk. Sýna börn lík í líkkistum og halda hnífi á brjósti ungrar stúlku.

Heimur glæpa og leyndar

ell hefur í vikunni haldið því fram að tveir erkibiskupar hið minnsta hafi logið að honum sem og fleira fólk sem var háttsett innan kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu á þessum tíma. „Þetta var óvenjulegur heimur. Heimur glæpa og leyndar. Og fólk vildi ekki raska kyrrstöðunni,“ sagði Pell.

Furness spurði Pell einnig um bróður Edward Dowlan, sem starfaði í Ballarat og Melbourne. Hann var síðar fangelsaður fyrir níð gegn drengjum. Pell var á þessum tíma ráðgjafi biskupsins í Ballarat en hann segist ekki muna eftir einstökum ásökunum í Dowlans. „Ég sé eftir að hafa ekki gert meira á þessum tíma,“ bætti hann við.

Í gær sagði Pell að glæpir kaþólska prestsins Gerald Ridsdale, sem hefur verið dæmdur í yfir 100 barnaníðsmálum, væru sorglegir en ekki áhugaverðir í hans augum á þessum tíma. Hann neitaði að hafa vitað af ofbeldi Ridsdales og sakaði biskupinn í Ballarat á þessum tíma, Ronald Mulkearns, um verulega vanrækslu í starfi fyrir að upplýsa sig ekki um hvað væri að gerast.

Hópur fólks sem varð fyrir ofbeldi af hálfu kirkjunnar þjónum er kominn til Rómar til þess að fylgjast með vitnisburði Pells. Fórnarlömbin hafa óskað eftir fundi með Frans páfa og Pell segist vera reiðubúinn til þess að aðstoða við það.

Stjórnvöld í Ástralíu settu rannsóknina af stað árið 2012 eftir áratuga langan þrýsting þar um. Nefndin hefur rætt við tæplega fimm þúsund fórnarlömb barnaníðinga innan kaþólsku kirkjunnar. Þar sem sem barnaníð virðist hafa viðgengist á munaðarleysingjahælum, miðstöðvum á vegum kirkjunnar, ungmennastarfi og í skólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert