Sitja eftir með tvo slæma kosti

Helstu leikendur í forvali flokkanna vestanhafs. Frá vinstri: Marco Rubio, ...
Helstu leikendur í forvali flokkanna vestanhafs. Frá vinstri: Marco Rubio, Ted Cruz, Bernie Sanders, Donald Trump og Hillary Clinton. AFP

Ekkert virðist nú geta komið í veg fyrir að það verði þau Hillary Clinton og Donald Trump sem muni bítast um embætti forseta Bandaríkjanna eftir niðurstöður forvals flokka þeirra í gær. Þau þýða jafnframt að líkindum að framboð Bernie Sanders sé senn á enda og að ráðandi öfl í Repúblikanaflokknum sitja eftir með tvo slæma kosti í Trump og öldungadeildarþingmanninum frá Texas, Ted Cruz.

Bæði Clinton og Trump eru með pálmann í höndunum eftir afgerandi velgengni þeirra á ofurþriðjudeginum svonefnda. Þá greiddu stuðningsmenn repúblikana og demókrata atkvæði í forvölum flokkanna í ellefu ríkjum Bandaríkjanna. Þau sigruðu í sjö ríkjum hvort.

Niðurstaðan þýðir að öll von er líklega úti fyrir öldungadeildarþingmanninn frá Vermont, Bernie Sanders, um að hann verði forsetaframbjóðandi demókrata. Clinton gersigraði hann í baráttunni um atkvæði svartra kjósenda í suðurríkjunum og vann víðast hvar með afgerandi mun. Sanders vann vissulega fjögur minni ríki en þau veita hins vegar tiltölulega fáa kjörmenn sem á endanum útnefna frambjóðanda flokksins.

Sanders hefur enn ekkert látið uppi um hvert framboð hans stefni eftir úrslitin í gær en líkurnar á að hann nái að skáka utanríkisráðherranum fyrrverandi í þeim ríkjum sem enn eiga eftir að kjósa þykja hverfandi.

Stuðningsmenn Bernie Sanders í heimaríki hans, Vermont.
Stuðningsmenn Bernie Sanders í heimaríki hans, Vermont. AFP

Martröð fyrir ráðandi öfl í Repúblikanaflokknum

Hjá repúblikönum er staðan nokkuð flóknari þó að auðkýfingurinn Trump sigli hraðbyri á útnefninguna. Fyrir það fyrsta voru fleiri frambjóðendur um hituna hjá þeim en demókrötum. Auk Trump og Cruz kepptust þeir Marco Rubio, John Kasich og Ben Carson um hylli stuðningsmanna repúblikana. Hvorki Kasich né Carson náðu að setja mark sitt á keppnina þó að Kasich hafi náð ágætum árangri í frjálslyndari ríkjunum Massachusetts og Vermont. Búast má við að þeir dragi sig í hlé von bráðar.

Það eru fyrst og fremst örlög Rubio sem eru óljós eftir að talið var upp úr kjörkössunum í gær. Þó að öldungadeildarþingmaðurinn frá Flórída hafi landað sínum fyrsta sigri í forvalinu fram að þessu í Minnesota þá þýða sigrar Ted Cruz í þremur ríkjum í gær að hann á sér vart viðreisnar von. Jafnvel í heimaríki hans, Flórída, þar sem forval fer fram 15. mars, mælist Trump með að því er virðist óyfirstíganlegt forskot á Rubio.

„Þetta er allt í höndum guðs. Vilji guðs mun ná fram að ganga,“ sagði Rubio við fréttamenn í gær.

Fyrri frétt mbl.is: Clinton sjö - Trump sjö

Skilaboðin sem Cruz var fljótur að breiða út voru á þá leið að Rubio ætti að draga sig í hlé því hann væri sjálfur sá eini sem ætti raunhæfa möguleika á að stöðva sigurgöngu Trump.

„Kosningabarátta okkar er sú eina sem hefur sigrað og getur sigrað Donald Trump,“ sagði Cruz í gær.

Líklegasta niðurstaðan eftir gærdaginn er því að Trump og Cruz standi tveir eftir í forvali repúblikana. Þá stöðu segja stjórnmálaskýrendur vestanhafs vera sannkallaða martröð fyrir ráðandi öfl í Repúblikanaflokknum. Þeir óttist ólíkindatólið Trump en hati Cruz sem þeim þykir of íhaldssamur og einstrengingslegur í skoðunum sínum. Þannig sé ólíklegt að flokkurinn fylki sér að baki Cruz þó að Rubio dragi sig í hlé.

Óformleg skoðanakönnun á vinsældum þriggja helstu frambjóðenda repúblikana á salerni ...
Óformleg skoðanakönnun á vinsældum þriggja helstu frambjóðenda repúblikana á salerni öldurhúss í London. Frá vinstri: Cruz, Trump og Rubio. AFP

Gæti endað í fátíðri óbundinni kosningu

Þannig virðist allt stefna í að Donald Trump verði útnefndur forsetaframbjóðandi repúblikana á flokksþingi í Cleveland í júlí. Honum hefur tekist að fylkja hluta repúblikana að baki sér um allt land. Washington Post vekur athygli að því að engum frambjóðanda repúblikana hafi tekist að vinna þau ríki sem Trump hefur unnið. Flokkadrættir eru innan flokksins á milli repúblikana í suðurríkjunum annars vegar og í frjálslyndari norðausturríkjunum hins vegar. Trump hefur hins vegar tekist að sigra í Alabama, Georgíu, Massachusetts, Tennessee, New Hampshire, Nevada, Virginíu og Suður-Karólínu.

Eini möguleiki ráðandi afla í flokknum á að koma í veg fyrir að Trump hreppi hnossið er ef auðjöfrinum umdeilda tekst ekki að tryggja sér kjörmennina 1.236 sem frambjóðandi þarf til að ná kjöri á flokksþinginu þar sem forsetaframbjóðandinn er útnefndur.

Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey, við hlið Donalds Trump í ...
Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey, við hlið Donalds Trump í gær. AFP

Ein af kenjum bandarískra stjórnmála er að kjósendur, hvorki í forvali flokkanna né í forsetakosningunum sjálfum, kjósa frambjóðendurna beinni kosningu. Atkvæði þeirra ákvarða aðeins hversu marga kjörmenn, sem svo eru kallaðir, hver frambjóðandi hlýtur í hverju ríki fyrir sig. Það eru þessir kjörmenn sem greiða svo atkvæði á flokksþinginu.

Þó að Trump hafi verið á mikilli sigurgöngu í forvali repúblikana hefur hann ekki unnið hreinan meirihluta í neinu ríki og kjörmennirnir hafa skipst niður á fjölda frambjóðenda. Því er möguleikinn fyrir hendi að Trump takist ekki að ná tilskyldum fjölda kjörmanna til að tryggja sér útnefninguna á flokksþinginu.

Áhugamenn um pólitík hugsa sér gott til glóðarinnar ef það gerist því þá gæti afar fátítt ferli farið í gang á flokksþingi repúblikana. Hafi enginn frambjóðandi tryggt sér meirihluta kjörmanna getur flokkurinn lýst þingið „opið“. Þá eru kjörmennirnir ekki lengur bundnir af því að greiða þeim frambjóðanda atkvæði sitt sem vann þeirra kjördæmi. Rubio er meðal annars talinn binda vonir við að verða útnefndur með þessum hætti. Möguleikinn á opnu þingi er þó talinn afar langsóttur.

New York Times um andstæðinga Trump og Clinton

Úrslit ofurþriðjudagsins

Washington Post um þá sem sigruðu og töpuðu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Byggingastjórn - Húsasmíðameistari
Tek að mér byggingastjórn og uppáskrift húsasmíðameistara. Nýbyggingar, viðhald...
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH & NORWEGIAN f. foreigners - ÍSLENSKA f. útl - ENSKA f. fullorðna - NORSKA
START/BYRJA: 2018: 5/3, 2/4, 30/4, 28/5, 25/6, 3/9, 1/10, 29/10, 26/11: 4 weeks...
Til sölu Færeyingur Haffrúin 6032
Gengur í Strandveiðina, Ný vél, vökvagír, skrúfa og mælaborð, nýtt rafkerfi,raf...
Anne-Gaëlle et Benjamin
Le plus beau des voyages c'est celui que nous accomplissons désormais, celui qui...
 
Samkoma
Félagsstarf
Samkoma kl. 20 í Kristniboðs- salnum. R...
Aðalfundur
Fundir - mannfagnaðir
Félag sjálfstæðismanna í Skóga- o...
Bækur til sölu
Til sölu
Bækur til sölu Menntamál 1.-42. árg. ...
Uppboð
Tilkynningar
UPPBOÐ Boðnir verða up...