Trump og Clinton halda forskotinu

Hillary Clinton ræðir við kjósendur í Detroit, Michigan þar sem …
Hillary Clinton ræðir við kjósendur í Detroit, Michigan þar sem kosið er á þriðjudaginn kemur. AFP

 Öldungadeildarþingmennirnir Ted Cruz og Bernie Sanders tryggðu sér lykilsigra í gær í baráttunni um Hvíta húsið. Donald Trump og Hillary Clinton gerðu þó nákvæmlega það sem þurfti til og eru enn óumdeilanlegir leiðtogar kapphlaupsins.

Trump og Clinton tryggðu sér sigur í Louisiana ríki, sem hefur úr stórum hluta fulltrúa að spila – nægilega mörgum til að halda þeim Trump og Clinton áfram á toppnum á mikilvægum tímapunkti í forkosningum Repúblikana- og Demókrataflokksins um útnefningu til forsetaframboðs.

Kosið var í fimm ríkjum í gær. Cruz sigraði í Kansas og Maine og ýtti þar með undir þá fullyrðingu sína að hann sé líklegasti kostur repúblikana til að slá Trump út úr keppninni. Marco Rubio átti hinsvegar ekki miklu fylgi að fagna og er því undir miklum þrýstingi að draga framboð sitt til baka.

„Takk Louisiana og takk Kentucky,“ sagði Trump í Flórída, fáum mínútum eftir að í ljós kom að hann yrði sigurvegarinn í Kentucky þar sem hann fékk fjögur prósent fleiri atkvæði en Cruz.

Donald Trump á blaðamannafundi í Flórída eftir kosningarnar í gær.
Donald Trump á blaðamannafundi í Flórída eftir kosningarnar í gær. AFP

Fyrir repúblikana var þetta fyrsta prófraunin sem myndi leiða í ljós hvort örvæntingarfullar tilraunir ríkjandi afla í flokknum, leiddar af fyrrverandi frambjóðanda flokksins Mitt Romney, til að stöðva sigurgöngu Trump myndi hafa áhrif á kjósendur.

Trump lýsti því sjálfur yfir að þessar tilraunir hefðu misheppnast og hvatti Rubio, sem margir stjórnmálaskýrendur telja líklegastan til að geta sigrað Trump, til að gefast upp.

„Marco Rubio átti mjög, mjög slæma nótt. Persónulega myndi ég hvetja hann til að hætta við. Ég myndi njóta þess að fá að takast á við Ted maður á móti manni,“ sagði hann. „Það verður auðvelt.“

Umfram fulltrúatalið geta Cruz og Sanders byggt á þeim skriðþunga sem þeir hrepptu í kvöld fyrir komandi kosningar í Michigan næsta þriðjudag og í Flórída og Ohio hinn 15. mars en ljóst þykir að sigur í seinni ríkjunum tveimur muni gera út um kapphlaupið.

Trump hefur nú unnið í 12 af 19 ríkjum sem kosið hafa frá því forkosningarnar hófust í Iowa í síðasta mánuði. Sigrar Cruz eru þó áminning um að þó svo að Trump virðist líklegur til að hreppa útnefningu flokks síns er það enn ekki óumflýjanlegt. Gengi Cruz fór fram úr væntingum í Kansas þar sem hann hlaut stuðning 48,2 prósenta kjósenda en Trump aðeins 23,3 prósent. Rubio var þriðji með 16,7 og John Kasic hlaut 10,7 prósent.

Í Main hafði Cruz 13 prósenta sigur yfir Trump en Rubio varð fjórði í ríkinu og þykir niðurstaðan stórslys fyrir hann, sem og fyrir ríkjandi öfl innan flokksins sem telja hann sinn besta kost en allt lítur nú út fyrir að pólitísku utangarðsmennirnir Trump og Cruz muni berjast sín á milli um tilnefninguna.

Er Ted Cruz sá eini sem getur haft sigurinn af …
Er Ted Cruz sá eini sem getur haft sigurinn af Trump? AFP

Svart fólk kýs Clinton

Í forkosningum demókrata var það lýðræðissinnaði jafnaðarmaðurinn Bernie Sanders sem hrósaði sigri í Kansas og Nebraska og þar með sigrum í sjö ríkjum af þeim 18 þar sem forkosningar flokksins hafa farið fram.

„Við höfum skriðþungann, orkuna og spennuna sem mun leiða okkur alla leið að Landsfundi demókrata í Fíladelfíu,“ sagði Sanders í yfirlýsingu.

Clinton tók hinsvegar Louisiana, stóru verðlaun helgarinnar, með sannfærandi hætti. Louisiana hafði úr 59 fulltrúum að spila en Kansas 37 og Nebraska 25.

AFP segir að stór hluti kjósenda í Louisiana sé svartur og að Sanders hafi tryggt sér sigur í hinum ríkjunum þar sem meginhluti kjósenda þeirra ríkja sé hvítur. Maine heldur forkosningar demókrata í dag og meginþorri kjósenda ríkisins er hvítur.

Bernie Sanders á fjölmennum baráttufundi í Warren, Michigan.
Bernie Sanders á fjölmennum baráttufundi í Warren, Michigan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert