Gaf sig fram eftir vinabeiðni

Facebook er til margs nýtilegt.
Facebook er til margs nýtilegt. AFP

Þjófur sem stal úr verslun í Gimli í Manitoba sem er í eigu Vestur-Íslendinga gaf sig fram við lögreglu eftir að eigandinn sendi honum vinabeiðni á Facebook. Áður hafði eigandinn deilt upptöku úr öryggismyndavél sem fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla.

Stefan Tergesen er eigandi verslunarinnar H.P. Tergesen í Gimli en hún hefur verið starfrækt í 117 ár. Eftir að þjófur braust inn í verslunina og stal úrum úr sýningarkassa greip Tergesen til þess ráðs að birta upptöku úr eftirlitsmyndavél á Facebook og Instagram. Hann segir að myndbandinu hafi verið deilt meira en 8.000 sinnum á einum sólahring.

Glöggir netverjar voru fljótir að bera kennsl á þjófinn og sendu Tergesen ábendingar. Áður en hann hafði samband við lögreglu sendi verslunareigandinn þjófnum vinabeiðni á Facebook, að því er kemur fram í frétt kanadíska ríkisútvarpsins CBC. Ungi maðurinn sendi Tergesen skilaboð og sagðist ætla að gefa sig fram við lögreglu.

„Ég svaraði honum að hann væri að gera það rétta. Ég er viss um að hann hafði heyrt í nógu mörgum vinum sínum og líklega séð myndbandið á netinu vegna þess að því hafði verið dreift svo víða. Ég held að hann hafi nokkurn veginn vitað að það væri engin von fyrir hann,“ segir Tergesen.

Í grein Steinþórs Guðbjartssonar í Morgunblaðinu um H.P. Tergesen árið 2004 kemur fram að Hans Pjetur Tergesen byggði þessa allrahanda verslun árið 1898 og opnaði hana 1. janúar, 1899. Hún hefur verið í eigu og undir stjórn afkomenda hans síðan.

Frétt CBC af innbrotinu í verslun Tergesen í Gimli

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert