Slökkva á tveimur kjarnaofnum

Kjarnaofnarnir tveir í Takahama-kjarnorkuverinu sem á að slökkva á.
Kjarnaofnarnir tveir í Takahama-kjarnorkuverinu sem á að slökkva á. AFP

Japanskur dómstóll fyrirskipaði í dag að slökkt skuli á tveimur kjarnaofnum sem áður höfðu verið metnir öruggir samkvæmt nýjum og strangari reglum sem settar voru eftir kjarnorkuslysið í Fukushima árið 2011. Íbúar í nágrenni kjarnorkuversins höfðuðu málið vegna mengunarhættu fyrir nærliggjandi stöðuvatn.

Eftir úrskurð dómstólsins verða aðeins tveir kjarnaofnar starfandi í Japan. Slökkt var á fjölda kjarnaofna eftir slysið í Fukushima í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar sem gekk yfir landið 11. mars 2011. Þetta er í fyrsta skipti sem slökkt er á ofnum sem kveikt hafði verið á aftur. Þykir niðurstaðan mikið áfall fyrir áform ríkisstjórnar Shinzo Abe, forsætisráðherra, um að færa kjarnorku aftur inn í orkukerfi landsins.

Forsvarsmenn Kansai-raforkufyrirtækisins sem á Takahama-kjarnorkuverið þar sem kjarnaofnarnir eru segja að þeir muni virða niðurstöðu dómstólsins þó að þeir harmi hana. Þeir ætla sér að áfrýja niðurstöðunni. Takahama er um 350 kílómetra vestur af höfuðborginni Tókýó.

Það voru íbúar í Shiga-héraði sem kröfðust þess að slökkt yrði á kjarnaofnunum í Takahama en þeir héldu því fram að hætta væri á að ofnarnir menguðu Biwa-vatn sem er eitt helsta vatnsból héraðsins. Ef slys í líkingu við það sem átti sér stað í Fukushima yrði í kjarnorkuverinu myndi það spilla drykkjarvatni fólksins.

Kjarnorkuslysið í Fukushima er það versta sem hefur átt sér stað frá Tsjernóbílslysinu árið 1986. Þrír kjarnaofnar versins bræddu úr sér eftir skemmdir sem urðu vegna flóðbylgjunnar sem skall á eftir jarðskjálftann 2011. Losnaði geislavirkt efni þá út í umhverfið og þurftu þúsundir manna að yfirgefa heimili sín í nágreninu. Kjarnaofnum landsins var lokað í kjölfarið og stífari öryggisreglur settar. Töluverð andstaða hefur verið gegn kjarnorku í Japan frá slysinu. 

Mótmælandi fyrir utan Takahama-kjarnorkuverið.
Mótmælandi fyrir utan Takahama-kjarnorkuverið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert