Clinton biðst afsökunar á ummælum sínum

Clinton á fjöldafundi í kosningabaráttu sinni sem nú er í …
Clinton á fjöldafundi í kosningabaráttu sinni sem nú er í algleymingi vestanhafs. AFP

Hillary Clinton hefur beðist afsökunar á að hafa lofað baráttu fyrrverandi forsetafrúarinnar Nancy Reagan við útbreiðslu alnæmis í Bandaríkjunum. Eftir að ummæli hennar féllu var hún gagnrýnd fyrir að hunsa viðhorf Ronalds Reagan gagnvart sjúkdómnum, sem breiddist sífellt meir út á hans valdatíma.

„Vegna forsetahjónanna beggja, og sérstaklega frú Reagan, þá hófum við umræðu í landinu á meðan enginn annar vildi tala um vandamálið. Enginn vildi gera neitt í því,“ sagði Clinton á föstudagsmorgun á sjónvarpsstöðinni MSNBC, þar sem hún var í Kaliforníu til að vera viðstödd útför Reagan.

Myndskeið mbl.is: Stjörnur og stjórnmálamenn við útförina

„Og þú veist,“ bætti hún við, „það er líka eitthvað sem kann að meta við hennar lágstemmdu baráttu. Hún náði inn til vitundar almennings og fólk byrjaði að segja, hey, við þurfum líka að gera eitthvað í þessu.“

Segja Reagan hafa hunsað áhyggjur

Ummælin féllu í grýttan jarðveg hjá þeim sem lengi hafa verið í fremstu víglínu í baráttunni við útbreiðslu sjúkdómsins. Margir þeirra saka Ronald Reagan um að hafa hunsað vaxandi áhyggjur af faraldrinum sem fyrst gerði vart við sig í hans forsetatíð á níunda áratugnum.

Nokkru síðar gaf Clinton út leiðréttingu á Twitter.

„Á meðan Reagan hjónin voru sterkir stuðningsmenn stofnfrumurannsókna og í leitinni að lækningu á Alzheimer's sjúkdómnum, þá fór ég með rangt mál hvað varðar alnæmissjúkdóminn,“ skrifaði Clinton. „Á því biðst ég afsökunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert