Eykur þrýstinginn á Assad

Sýrlenskur maður gengur framhjá mynd af Assad, forseta Sýrlands í …
Sýrlenskur maður gengur framhjá mynd af Assad, forseta Sýrlands í Damaskus. Utanríkisráðherra Þýskalands segir að útspil Rússa í dag muni auka þrýsting á Assad. AFP

Brottför rússnesks herliðs frá Sýrlandi mun auka þrýstinginn á Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, að semja um pólitíska breytingu í landinu. Þetta segir utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, en fyrr í dag sagði Vladimir Pútín, forseti Rússlands, að her landsins hefði náð markmiðum sínum í Sýrlandi og myndi að mestu hverfa á brott.

Tímabundið vopnahlé sem herlið Assad samdi við andstæðinga sína í Sýrlandi hefur að mestu haldið síðan 27. febrúar, en hvorki ríki íslams eða Nusra hópurinn eru taka þátt í vopnahléinu.

Friðarviðræður standa yfir þessa dagana í Genf í Sviss og er framtíð Assad þar mikið í umræðunni. Steinmeier sagði við fréttamenn að ef vopnahléið núna væri loksins merki um að fylkingar í landinu væru orðnar þreyttar á átökunum og hefðu komist að þeirri niðurstöðu að enginn einn gæti unnið stríðið, þá væri von um að pólitísk lausn gæti virkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert