Fjöldamorðingi kvartar undan mannréttindabrotum

Skien fangelsið fyrir utan Ósló þar sem fjöldamorðinginn Anders Behring …
Skien fangelsið fyrir utan Ósló þar sem fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik afplánar AFP

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik, sem myrti 77 manns í Ósló og nágrenni árið 2011, mun koma fyrir dóm í Noregi í dag en hann sakar norska ríkið um að brjóta gegn mannréttindum hans með því að hafa haldið honum í einangrun í tæp fimm ár. 

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik AFP

Breivik hefur verið duglegur að koma sér í fréttirnar úr fangelsinu og ítrekað borið fangelsismálayfirvöld og fleiri þungum sökum um að brjóta á réttindum sínum. Nú segir hann að norska ríkið hafi brotið gegn tveimur ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Annað ákvæðið lýtur að að banni við ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu og hitt ákvæðið á að tryggja rétt fólks á að virðing sé borin fyrir einka- og fjölskyldulífi og bréfaskiptum.

Í öryggisskyni verða réttarhöldin haldin í íþróttasal Skien fangelsisins, í um 130 km fjarlægð frá Ósló en Breivik afplánar í fangelsinu. Í dag á fyrsta degi réttarhaldanna flytja lögmenn ræður sínar og svo mun Breivik bera vitni í þrjár klukkustundir í fyrramálið.

Skien fangelsið
Skien fangelsið AFP

Allt frá fjöldamorðunum, en flest fórnarlömb hans voru ungmenni í sumarbúðum jafnaðarmanna í Utøya, 22. júlí 2011, hefur honum verið haldið frá öðrum föngum og fylgst með samskiptum hans við umheiminn.

Póstur hans er lesinn af fangavörðum til þess að koma í veg fyrir að honum takist að koma upp öfganeti í kringum sig og heimsóknir til hans eru fátíðar. 

Á Utøya skaut hann nánast viðstöðulaus á ungmennin í eina klukkustund og 13 mínútur og reyndi að drepa sem flest ungmennanna sem voru á eyjunni, en alls voru um 600 ungmenni stödd þar. Ástæðan var andúð hans á Verkamannaflokknum sem hann taldi að  bæri ábyrgð á fjölmenningunni í Noregi sem Breivik telur af hinu illa.

Skien fangelsið.
Skien fangelsið. AFP

Breivik heldur því fram að aðstæður hans í fangelsinu jafnist á við pyntingar og að hann þjáist vegna einangrunarinnar, að sögn lögmanns hans, Øystein Storrvik.

„Eitt af því sem hann gerði helst í fangelsinu var að læra en hann er hættur því núna og ég tel að það sé merki um að einangrunin sé byrjuð að hafa neikvæð áhrif á andlega heilsu hans,“ segir Storrvik.

Ríkissaksóknari segir aftur á móti að Breivik búið við góðar aðstæður í fangelsinu og að þær brjóti á engan hátt gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.

Hann hafi aðgang að þremur klefum, einum sem hann býr í, öðrum til þess að læra og þeim þriðja þar sem hann stundar líkamsrækt. Hann hafi sjónvarp, tölvu (að vísu ekki nettengda) og leikjatölvu. Hann geti eldað sinn eigin mat og þvegið þvottinn sinn sjálfur. Aðgengi hans að heiminum fyrir utan veggi fangelsisins séu takmarkaðir, eðli málsins samkvæmt en hann sætir alls ekki algerri einangrun segir Marius Emberland, sem mun halda uppi vörnum fyrir norska ríkið. 

Umfjöllun NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert