Lögðu af stað út í óvissuna

Þrátt fyrir að samkomulag um að flóttamönnum sem koma frá Tyrklandi til Grikklands verði jafnharðan snúið til baka hafi tekið gildi á miðnætti lögðu einhverjir af stað út í óvissuna í nótt. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að ef flótta- og farandfólkið sækir ekki um hæli í Grikklandi eða er synjað um hæli þá verði því snúið aftur til Tyrklands. Ef sýrlenskir flóttamenn eru sendir aftur til Tyrklands fær sýrlenskur flóttamaður sem er í Tyrklandi að fara í hans stað til Evrópu. 

DIMITAR DILKOFF

Gríðarlegur fjöldi flóttafólks kom til grísku eyjanna síðustu daga og segja grísk yfirvöld ekki mögulegt að framfylgja samkomulaginu strax. Mikil andstaða er víða við samkomulagið og voru haldnir samstöðufundir með flóttafólki í mörgum evrópskum borgum í gær. 

Von er á 2.300 sérfræðingum, þar á meðal í öryggismálum og innflytjendamálum, sem og túlkum til Grikklands í dag og næstu daga vegna samkomulagsins og að veita Grikkjum aðstoð við að koma samningum í framkvæmd.

Talsmaður grísku ríkisstjórnarinnar, GiorgosKyritsis, segir í viðtali við AFP-fréttastofuna að það sé ógjörningur að koma áætlun sem þessari af stað á aðeins sólarhring.

ARIS MESSINIS

Um 1.500 fóru yfir Eyjahaf til Grikklands á föstudag, tvöfalt fleiri en dagana á undan. Aðeins nokkrum klukkustundum áður en samkomulagið tók gildi á miðnætti drukknaði fjögurra mánaða stúlka þegar bátur sem hún var í sökk við strönd Tyrklands.

Frá því í janúar í fyrra hefur yfir ein milljón flótta- og farandfólks komið til ríkja ESB með bátum frá Tyrklandi til Grikklands. Það sem af er ári hafa komið 143 þúsund og um 460 hafa drukknað á flóttanum.

BBC

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert