Söguleg heimsókn Obama til Kúbu

Barack Obama og Michelle Obama ganga frá borði í Havana, …
Barack Obama og Michelle Obama ganga frá borði í Havana, höfuðborg Kúbu fyrr í dag. AFP

Barack Obama varð í dag fyrsti forseti Bandaríkjanna í 88 ár til að heimsækja Kúbu. Utanríkisráðherra Kúbu, Bruno Rodriguez, tók á móti Obama ásamt Michelle Obama eiginkonu hans og tveimur dætrum. Heimsóknin er táknræn fyrir breytta tíma milli ríkjanna, en í fyrra tóku Bandaríkin Kúbu af lista yfir ríki sem studdu hryðjuverkastarfsemi og hafa samskipti þeirra batnað til muna síðan þá.

„¿Que bola Cuba?“

„¿Que bola Cuba?“ tísti Obama á Twitter þegar hann lenti í flugvellinum í höfuðborg Kúbu, Havana, en það er slanguryrði sem íbúar Kúbu nota fyrir „hvað segist?“

Twitterfærsla Obama við komuna.
Twitterfærsla Obama við komuna. AFP

Forsetatíð Obama lýkur á næsta ári og hefur hann leitast eftir því að ljúka kjörtímabilinu með því að hafa söguleg áhrif á utanríkispólitík Bandaríkjanna. Mun hann meðal annars heimsækja sendiráð Bandaríkjanna á Kúbu, en það var opnað á ný á síðasta ári. Þá mun hann hitta forseta Kúbu, Raul Castro, á morgun og ætla þeir að horfa saman á hafnaboltaleik áður en Obama heldur til baka til Bandaríkjanna á þriðjudaginn.

Nokkrum mínútum áður en Obama lenti á Kúbu handtók lögreglan hóp mótmælenda sem kröfðust meiri mannréttinda. Er hópurinn bannaður á Kúbu, en hann heitir konur í hvítu og er skipaður eiginkonum fyrrverandi pólitískra fanga.

Viðskiptabannið enn í gildi

Bandaríkin og Kúba hafa lengi eldað grátt silfur saman, en eftir að kommúnistar tóku völdin í landinu árið 1959 hafa stjórnendur í Washington lengi reynt að koma stjórninni í Kúbu í burtu leynt eða ljóst. Meðal annars reyndu Bandaríkjamenn efnahagslegar þvinganir gegn Kúbu, innrás í Svínaflóa árið 1961 og að ráða Fidel Casto, fyrrverandi forseta landsins, af dögum.

Þrátt fyrir bætt samskipti ríkjanna er viðskiptabann gegn Kúbu enn í gangi, en það er aðeins á valdi þingsins að afnema það og því stjórnar Repúblikanaflokkurinn núna. Hafa þingmenn flokksins meðal annars gagnrýnt Obama fyrir að vera linur í samskiptum við stjórnvöld í Kúbu að undanförnu.

Bandarískur forseti, bandaríski fáninn og sá kúbverski á sömu myndinni …
Bandarískur forseti, bandaríski fáninn og sá kúbverski á sömu myndinni og það á Kúbu. Slíkt hefði verið óhugsandi fyrir ekki svo löngu síðan. AFP

Hið „mjúka stríð“

Vonir Obama standa aftur á móti til þess að með bættum samskiptum og auknum viðskiptum við Kúbu muni landið taka breytingum sjálfkrafa, bæði á efnahagslega sviðinu og því pólitíska.

John Kavulich, forseti Bandarísk-kúbverska viðskiptaráðsins, sagði að heimsókn Obama núna væri dæmi um „mjúkt stríð“ þar sem gestir væru hermenn, farþegaflugvélar væru flugherinn og skemmtiferðaskip flotinn. Nýjasta útspil Bandaríkjanna í þessu „stríði“ var ákvörðun Obama að heimila leigufélaginu Airbnb að vera milligönguaðili fyrir útleigu á íbúðum á Kúbu. Er þetta í fyrsta skiptið síðan árið 1959 sem bandarískt gistiþjónustufyrirtæki hefur mátt eiga viðskipti á eyjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert