Viðskiptabanninu verður aflétt

Barack Obama ræðir við blaðamenn í Havana í dag.
Barack Obama ræðir við blaðamenn í Havana í dag. AFP

Bandaríkjamenn munu afnema viðskiptabann á Kúbu að fullu en ekki er vitað hvenær. Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var í Havana, höfuðborg Kúbu en nú stendur þar yfir opinber heimsókn Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Blaðamenn á staðnum lýstu fundinum sem „spennuþrungnum“ en „einstökum“.

Báðir forsetarnir svöruðu spurningum blaðamanna. Raul Castro forseti Kúbu, neitaði fyrir það að kúbversk yfirvöld hefðu pólitíska fanga í haldi. Sagði hann blaðamönnum að „afhenda sér lista“ og að öllum pólitískum föngum yrði sleppt í kvöld en var harður á því að það væru engir.

Lagði hann jafnframt áherslu á að mannréttindi væru virt í Kúbu. „Við verjum mannréttindi og að okkar mati eru borgaraleg, pólitísk, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi ódeilanleg, víxltengd og algild,“ sagði forsetinn.

Samkvæmt frétt BBC er forsetinn ekki vanur erfiðum spurningum frá blaðamönnum og sagði spurninguna um pólitísku fangana „ókurteisa“. Batt hann endi á blaðamannafundinn með því að segja „Ég held að þetta sé nóg“.

Náði hann þó að gagnrýna bandarísk stjórnvöld og sagði það ótrúlegt að yfirvöld þar í landi „hvorki verndaði né tryggði borgurum heilsugæslu, menntun, félagslegt öryggi, mat og uppbyggingu.“

Forsetarnir voru þó sammála um það að framtíð Kúbu skipti mestu máli, ekki fortíð, og að vinna þyrfti í því að bæta samband ríkjanna tveggja.

Aðspurður um viðskiptabannið sagðist Obama ekki vita nákvæmlega hvenær því yrði aflétt en viðurkenndi að það væri nauðsynlegt. „Ástæðan er sú að það sem við gerðum í 50 ár þjónaði ekki hagsmunum okkar eða hagsmunum Kúbverja,“ sagði Obama. Bætti hann við að hans ríkisstjórn hefði gert það sem þær gætu til þess að afnema viðskiptabannið en það yrði ekki fullklárað án aðkomu þingsins sem er erfiðara á kosningaári.

Fyrir blaðamannafundinn tilkynnti tæknirisinn Google að opnað yrði tæknisetur í Kúbu þar sem hægt væri að nálgast internet í betri gæðum en er í boði á eyjunni í dag. Google vonast til þess að setrið verði til þess að internet verið aðgengilegra á Kúbu en aðeins 5% Kúbverja hafa aðgang að netinu heima hjá sér.

Blaðamenn á staðnum lýstu fundinum sem „spennuþrungnum“ en „einstökum“.
Blaðamenn á staðnum lýstu fundinum sem „spennuþrungnum“ en „einstökum“. AFP
Raul Castro
Raul Castro AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert