Sex handteknir í Brussel

Frá aðgerðum lögreglu í Schaerbeek-hverfi fyrr í vikunni.
Frá aðgerðum lögreglu í Schaerbeek-hverfi fyrr í vikunni. AFP

Belgíska lögreglan hefur staðið fyrir viðamiklum aðgerðum í Schaerbeek-hverfi í Brussel í kvöld, sama hverfi og voru sex manns handteknir fyrr í kvöld annars staðar í borginni. Sérsveit lögreglunnar, brynvarðir bílar og þyrlur hafa tekið þátt í aðgerðunum sem hófust um kl. 21 að staðartíma.

Ríkissaksóknari landsins hefur ekki gefið út hverjir hafi verið handteknir, hvers vegna og hvort þeir verði ákærðir. Í yfirlýsingu segir að ákveðið verði í fyrramálið hvort mennirnir verði áfram í haldi, að því er kemur fram í frétt CNN.

Dagblaðið Le Soir greinir frá því að íbúar í Schaerbeek hafi heyrt háan hvell um kl. 21:45 að staðartíma. Ríkisútvarp Belgíu hefur eftir heimildum innan lögreglunnar að aðgerðirnar beinist gegn mönnum sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í hryðjuverkaárásunum á þriðjudag.

Ekki liggur fyrir hvort að handtökurnar tengjast handtöku grunaðs hryðjuverkamanns í París síðdegis í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert