Sex létust í sjálfsmorðssprengjuárás

Hjálparliðar flytja fórnarlömb árásar Shebab í febrúar síðastliðnum.
Hjálparliðar flytja fórnarlömb árásar Shebab í febrúar síðastliðnum. AFP

Vígamenn Shebab-hópsins í Sómalíu hafa lýst yfir ábyrgð á sjálfsmorðssprengjuárás sem gerð var á hóteli í bænum Galkayo fyrr í dag, með þeim afleiðingum að sex létust, þar á meðal háttsettur embættismaður í bæjarstjórninni.

Vitni segja að mikil sprenging hafi orðið nærri kaffihúsi þar sem fólk hafði safnast saman til tedrykkju.

„Ég heyrði þungan hvell og svo sá ég líkamsparta ýmissa látinna, hlutar af þeim voru dreifðir um svæðið,“ segir einn íbúi í samtali við AFP.

Shebab, sem er með tengsl við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda, berst fyrir því að hrinda ríkisstjórn landsins af stóli. Segist hópurinn bera ábyrgð á árásinni í tilkynningu sem útvarpað var á sérstakri útvarpsstöð vígamannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert