Dvergarnir í Auschwitz

Ovitz-fjölskyldan
Ovitz-fjölskyldan

„Það var næstum alveg dimmt. Við stóðum í herbergi sem leit út eins og baðherbergi og biðum eftir því að eitthvað gerðist. Við litum upp í loftið til að kanna hvers vegna ekkert vatn kæmi. Skyndilega fundum við lyktina af gasi. Við héldum niðri í okkur andanum. Það leið yfir sum okkar og þau féllu á gólfið. Við hrópuðum á hjálp. Mínútur liðu, kannski bara sekúndur. Þá heyrðum við reiðilega rödd að utan: Hvar er dvergafjölskyldan mín? Dyrnar opnuðust og við sáum dr. Mengele standa þar. Hann fyrirskipaði að við yrðum borin út og lét hella köldu vatni á okkur til að við rönkuðum við okkur.“

Þannig lýsir Perla Ovitz meðal annars veru hennar og fjölskyldu hennar í útrýmingarbúðum þýskra nasista í Auschwitz í Póllandi á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Fjölskyldan var frá þorpinu Rozavlea í Transilvaníu sem í dag tilheyrir Rúmeníu. Áður er stríðið braust hafði Perla og sex systkini hennar, sem öll voru dvergar, getið sé frægðar sem skemmtikraftar í eigin sýningu þar sem þau sungu og spiluðu lög við miklar vinsældir. Um fjölskyldufyrirtæki var að ræða en í heildina taldi fjölskyldan tólf meðlimi. Þeir sem ekki tóku með beinum hætti þátt í sýningunni sjálfri sáu um rekstur fyrirtækisins.

Fangar í útrýmingarbúðum nasista eftir að hafa verið frelsaðir.
Fangar í útrýmingarbúðum nasista eftir að hafa verið frelsaðir. Wikipedia

Þýskir nasistar vildu útrýma fólki sem þeir töldu óæðra, ekki síst gyðingum en Perla og fjölskylda hennar voru gyðingar. Í maí 1944 var fjölskyldan send til Auschwitz-útrýmingarbúðanna. Flestir sem þangað voru sendir voru samstundis teknir af lífi í gasklefunum nema þeir væru taldir nothæfir til erfiðisvinnu. Dr. Josef Mengele, SS-foringi og einhver alræmdasti stríðsglæpamaður nasista, valdi hins vegar sérstaklega úr fólk sem hann taldi áhugavert vegna líkamsbyggingar þess með það fyrir augum að gera alls kyns tilraunir á því. Ovitz-fjölskyldan vakti fyrir vikið strax við komuna áhuga Mengele.

Fjallað er um Ovitz-fjölskylduna á fréttavef breska dagblaðsins Guardian en umfjöllunin er byggð á bókinni Giants: The Seven Dwarfs Of Auschwitz eftir Yehuda Koren og Eilat Negev. Fram kemur í umfjölluninni að í kjölfar þess að fjölskyldan kom til Auschwitz hafi atburðurinn sem lýst er í upphafi átt sér stað. Ljóst sé að fjölskyldan hafi margoft komist hjá því að vera tekin af lífi en áhugi Mengele á henni hafi orðið til þess að það gerðist ekki. Vegna sérstöðu sinnar sem fjölskylda hafi Mengele einnig farið varlegar með þau en flesta aðra sem hann hafi gert hryllilegar og ómanneskjulegar tilraunir á.

Fangar við komuna til Auschwitz-útrýmingarbúðanna.
Fangar við komuna til Auschwitz-útrýmingarbúðanna. Wikipedia

Margir af þeim sem sendir voru til Auschwitz reyndu að halda lífi með því að sýna fram á einhverja hæfileika segir í umfjöllun Guardian. Þannig hafi rakarar til að mynda reynt að verða sér úti um matarbita með því að raka verði og málarar málað myndir í sama tilgangi. Fangar sem lifðu af veruna í Auschwitz fullyrti eftir stríðið að hafa séð Ovitz-fjölskylduna skemmta nasistum í Auschwitz en það þvertóku Perla og fjölskylda hennar alfarið fyrir. Fram kemur í umfjölluninni að vafalaust hafi Ovitz-fjölskyldunni þótt skammarlegt að hafa skemmt böðlunum á sama tíma og þeir myrtu fjölda fólks.

Talið var margoft af öðrum föngum í Auschwitz að Ovitz-fjölskyldan hefði verið myrt í heild eða einstakir meðlimir hennar. Fólk sem lifði veruna í útrýmingarbúðunum af greindi meðal annars frá því að hafa séð suma meðlimi hennar myrta eða heyrt að hún hefði verið send í gasklefana. Fjölskyldan lifði engu að síður veruna í Auschwitz af og settist í kjölfarið að í Ísrael í maí 1949. Þremur mánuðum síðar fór sýning þeirra aftur af stað og starfaði fram til ársins 1955. Perla og systkini hennar urðu langlíf en systur hennar Rozika og Franziska urðu 98 ára og 91 árs. Sjálf lést Perla í september 2001.

Börn á meðal fanga í Auschwitz-útrýmingarbúðunum.
Börn á meðal fanga í Auschwitz-útrýmingarbúðunum. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert