Dómnum vegna Breivik áfrýjað

Fjöldamorðinginn Anders Breivik.
Fjöldamorðinginn Anders Breivik. AFP

Norska ríkið hyggst áfrýja dómi dómstóls í Osló sem féllst á það sjónarmið fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik að einangrunarvist hans í fangelsi undanfarin ár fæli í sér ómannúðlega og niðurlægjandi meðferð. Breivik afplánar lífstíðardóm fyrir að myrða 77 manns árið 2011. 

Fram kemur í yfirlýsingu Anders Anundsen, dómsmálaráðherra Noregs, að hann hafi falið ríkissaksóknara landsins að áfrýja dómnum sem féll 20. apríl. Dómurinn byggði niðurstöðu sína á 3. grein Mannréttindasáttmála Evrópu en þar er kveðið á um það að enginn skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Dómsmálaráðherrann segir norska ríkið ósammála dómnum og því yrði honum áfrýjað. Það yrði gert formlega í síðasta lagi 22. maí. Fram kemur í frétt AFP að Breivik hafi þrjá fangaklefa til umráða. Þar séu tvær sturtuaðstöður, tvö sjónvörp, tvær leikjatölvur, ritvél, bækur og dagblöð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert