Þingforsetinn dæmdur fyrir „rað-barnaníð“

Dennis Hastert eftir dómsuppkvaðninguna í dag.
Dennis Hastert eftir dómsuppkvaðninguna í dag. AFP

Fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hefur verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi. Við dómsuppkvaðninguna í dag kallaði dómarinn hann „rað-barnaníðing“ sem hefði reynt að nota mútufé til að þagga glæpi sína niður.

Dennis Hastert, sem er 74 ára, kom fyrir réttinn í hjólastól og sagðist „skammast sín djúpt“ fyrir að hafa „farið illa með“ nemendur meðan hann vann sem þjálfari í barnaskóla á áttunda áratugnum. Eitt fórnarlambanna sagðist hafa verið niðurbrotið og upplifað sig svikið vegna ofbeldisins.

Hastert var þingmaður Illinois frá 1987 til 2007. Hann er sá forseti fulltrúadeildarinnar sem hefur gegnt því embætti lengst í sögu Bandaríkjanna. Sem forseti fulltrúadeildarinnar var Hastert annar í valdaröðinni, skyldi forseti Bandaríkjanna ekki geta gegnt embætti sínu lengur.

Margir af fyrrum kollegum hans höfðu biðlað til dómarans um að vera honum mildur. Í október játaði hann sig sekan um að brjóta gegn bankalögum eftir að hann reyndi að greiða vitni 3,5 milljónir Bandaríkjadala fyrir að þaga yfir fortíð hans sem kynferðisofbeldismaður.

Saksóknarar segja Hastert hafa misnotað fimm drengi á tímabilinu 1965 til 1981 á meðan hann vann í Yorkville úthverfinu í Chicago. Það var þó ekki hægt að kæra Hastert fyrir kynferðisglæpina þar sem þeir eru fyrndir og því var hann í raun ekki dæmdur fyrir níðingsverk sín nema íbeint, vegna mútugreiðslanna.

Lögmaður Hastert reyndi að koma í veg fyrir að hann fengi fangelsisdóm með því að vísa til slæmrar heilsu Hastert og þeirrar skammar sem hann hefði þegar orðið fyrir.

Eftir játningu Hastert var málverk af honum fjarlægt úr þinghúsinu í Washington. Dómarinn í málinu, Thomas Durkin, skipaði einnig fyrir að Hastert myndi gangast undir meðferð fyrir kynferðisbrotamenn og greiða fórnarlömbum sínum 250 þúsund dali í bætur auk þess sem hann mun þurfa að ljúka tveggja ára skilorðsbundnum dómi að fangelsisvistinni lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert