Vinnuvikan aðeins tveir dagar

Starfsmaður í kjötverslun í Venezúela. Ríkisstjórn landsins ætlar að fækka …
Starfsmaður í kjötverslun í Venezúela. Ríkisstjórn landsins ætlar að fækka vinnudögum opinberra starfsmanna niður í 2 á viku. FEDERICO PARRA

Ríkisstjórn Venesúela tilkynnti í gær að opinberir starfsmenn myndu taka frí þrjá auka daga á viku. Það þýðir í raun að opinberir starfsmenn í landinu muni aðeins vinna í tvo daga. Er þetta gert til að reyna að stemma stigum við rafmagnsskorti í landinu.

„Það verður engin vinna í opinbera geiranum á miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum, nema í grundvallarstörfum og nauðsynlegum verkefnum,“ sagði aðstoðarforseti landsins, Aristobulo Isturiz, í sjónvarpsávarpi í gær.

Þetta er nýjasta útspil ríkisins til að reyna að ná böndum á efnahagskrísuna sem geisar í landinu. Það er meðal annars orðið daglegt brauð að íbúar landsins þurfi að bíða í röðum klukkustundum saman til að kaupa nauðsynjavörur í búðum.

Einnig verður dregið úr skólastarfi samhliða þessum breytingum og mun skólastarf í grunn- og menntaskólum liggja niðri á föstudögum.

Rafmagnslaust verður í nokkrum af stærstu sýslum landsins fjórar klukkustundir …
Rafmagnslaust verður í nokkrum af stærstu sýslum landsins fjórar klukkustundir á dag næstu vikurnar. JUAN BARRETO

Yfirvöld í landinu höfðu þegar stytt vinnudaginn úr átta klukkustundum niður í sex klukkustundir og bætt föstudegi við sem frídegi fram í júní. Hafa yfirvöld kennt veðurfyrirbærinu El Nino um þann orkuskort sem nú er í landinu en vatnsstaða lóna fyrir vatnsaflsvirkjanir hefur verið mjög lág. Vonast yfirvöld eftir rigningu á komandi vikum svo hægt sé að fylla lónin.

Til viðbótar við vinnubannið ákváðu yfirvöld að rafmagn yrði tekið af átta sýslum í landinu í fjórar klukkustundir á dag í næstu vikurnar. Þá ætluðu yfirvöld að flýta klukkunni í landinu um 30 mínútur og með því fá hálftíma meira dagsljós í hinn hefðbundna vinnudag fólks. 

mbl.is

Bloggað um fréttina