Kynferðisbrotamáli vísað frá í Köln

Maðurinn mætti fyrir dómstól í Þýskalandi í dag.
Maðurinn mætti fyrir dómstól í Þýskalandi í dag. AFP

Þýskur dómstóll hefur vísað frá kynferðisbrotamáli gegn karlmanni frá Alsír í kjölfar þess að fórnarlambið gat ekki borið kennsl á hinn ákærða. Hafði maðurinn verið ákærður fyrir kynferðisbrot sem framið var á nýársnótt í þýsku borginni Köln.

Fréttaveita AFP greinir frá því að ekki hafi verið hægt að sýna fram á að maðurinn, sem er 26 ára gamall, hafi verið einn þeirra sem áreittu konur kynferðislega umrætt kvöld. Fjölmargar konur tilkynntu kynferðisofbeldi til lögreglu, en frá hendi þessara manna þurftu konurnar meðal annars að þola allt frá káfi til nauðgana. Brotin voru framin af miklum fjölda karlmanna fyrir utan aðalbrautarstöðina og dómkirkjuna í Köln.

Maðurinn sem um ræðir er hælisleitandi frá Alsír og var hann handtekinn um miðjan janúar sl. ásamt öðrum hælisleitanda, sem einnig er frá Alsír og er 22 ára gamall, í athvarfi fyrir hælisleitendur. Sá eldri var grunaður um að hafa káfað á konu og stolið af henni farsíma en sá yngri var handtekinn fyrir þjófnað. 

Lögregla fann síðar farsíma konunnar á manninum. Fyrir dómi sagðist hann hins vegar hafa keypt símann af öðrum manni. Var hann fundinn sekur um að hafa þýfi undir höndum og fyrir að hafa brotist inn í bifreið í desember á síðasta ári. Fyrir þessi brot fékk hann skilorðsbundinn sex mánaða fangelsisdóm. 

Tveir karlmenn frá Marokkó bíða nú dóms í Þýskalandi. Annar þeirra er 19 ára gamall, en aldur hins hefur ekki verið gefinn upp. Sá er sakaður um að hafa káfað á 18 ára gamalli konu eftir að hópur karlmanna, 15 til 20 talsins, umkringdu hana.

Alls hafa 1.170 kærur borist lögreglunni í Þýskalandi vegna ofbeldisverka sem framin voru á nýársnótt. Af þeim eru 492 kynferðisbrotamál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert