Út fyrir mörk ásættanlegrar umræðu

Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins, getur ekki orða bundist yfir ummælum Borisar Johnson, fyrrverandi borgarstjóra London, um að Evrópusambandið sé á sömu leið og Hitler. Hunsa ætti svo fráleita röksemdafærslu ef hún kæmi ekki frá einum áhrifamesta stjórnmálamanni stjórnarflokks.

Johson tilheyrir breska Íhaldsflokkinum og er einn helsti talsmaður þess að Bretar gangi úr Evrópusambandinu. Í viðtali við blaðið Sunday Telegraph um helgina sagði hann sambandið haga sér á sama hátt og nasistaleiðtoginn Adolf Hitler með því að reyna að búa til evrópskt ofurríki.

„Evrópusambandið er ein tilraunin til að gera þetta með annarri aðferð,“ sagði Johnson í viðtalinu. 

Ummælin féllu í grýttan jarðveg hjá Tusk sem sagði blaðamönnum í Kaupmannahöfn að hann gæti ekki þagað um þau jafnvel þó að hann ætlaði ekki að skipta sér af umræðunni í Bretlandi um aðildina að ESB.

„Það ætti algerlega að hunsa svona fráleita röksemdafærslu ef hún hefði ekki verið sett fram af einum áhrifamesta stjórnmálamanni stjórnarflokksins. Boris Johnson fór út fyrir mörk skynsamlegrar umræðu og sýnir af sér pólitískt minnisleysi,“ sagði Tusk.

Þó að kenna mætti ESB um ýmislegt þá væri það enn öflugasta brjóstvörnin gegn hættulegum og hörmulegum stríðsátökum þjóða Evrópu.

Fyrri frétt mbl.is: Líkir ESB við vegferð Hitlers

Boris Johnson líkti Evrópusambandinu við nasismann.
Boris Johnson líkti Evrópusambandinu við nasismann. AFP
mbl.is