Amina hitti Nígeríuforseta

Mohammadu Buhari, forseti Nígeríu, ræðir við Amina Ali.
Mohammadu Buhari, forseti Nígeríu, ræðir við Amina Ali. AFP

Nígeríska skólastúlkan sem fannst á þriðjudag, eftir að hafa verið rænt af vígamönnum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í apríl 2014, fór í dag á fund Muhammadu Buhari, forseta Nígeríu, á sveitasetri hans í höfuðborginni Abuja.

Stúlkan, hin nítján ára Amina Ali Nkeki, var ein af 219 skólastúlkum sem vígamennirnir rændu í Chibok fyrir rúmlega tveimur árum. Hún fannst ásamt fjögurra mánaða gömlu barni á þriðjudag í Sambisa-skóg­in­um nærri landa­mær­um Kam­erún.

Buhari sagðist vera hæstánægður með að stúlkan hefði fundist og að hún gæti haldið áfram að feta menntaveginn. Það hlyti að vera forgangsmál nígerísku ríkisstjórnarinnar að tryggja að svo yrði, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Talsmaður Buhari sagði jafnframt að stjórnvöld myndu hjálpa henni að aðlagast samfélaginu á ný. Amina var 17 ára þegar henni var rænt en hún er 19 ára í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert