Hefur annarri stúlku verið bjargað?

Þessi mynd er sögð sýna Serah Luka, sem herinn segir …
Þessi mynd er sögð sýna Serah Luka, sem herinn segir að hafi verið meðal stúlknanna sem rænt var í Chibok. AFP

Aðgerðarsinnar hafa dregið í efa fullyrðingar nígeríska hersins þess efnis að annarri skólastúlku frá Chibok hafi verið bjargað úr klóm hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. Herinn hafði samband við leiðtoga hóps foreldra stúlknanna sem var rænt þegar Amina Ali fannst, en hópurinn hefur ekkert heyrt af seinni „björguninni.“

Að sögn hersins var Serah Luka bjargað í Damboa í Borno ásamt 96 konum og börnum. Hún á að hafa sagt hermönnum og bardagamönnum að hún væri dóttir kristins prests frá Madagali, en hún hefði sótt skóla í Chibok til að taka próf.

Að sögn leiðtoga foreldrahópsins voru tvær stúlkur með eftirnafnið Luka meðal skólastúlknanna sem var rænt, Kauna Luka Yana og Naomi Luka Dzakwa. Þá eru fjórir prestar á lista yfir foreldra stúlknanna og enginn þeirra ber nafnið Luka.

„Engin stúlknanna var frá Madagali. Þær voru annað hvort frá Chibok, Damboa, Askira eða Uba. Því get ég sagt að þessi stúlka var ekki meðal þeirra sem var rænt frá Chibok,“ segir Yakubu Nkeki.

AFP hefur eftir öðrum heimildarmanni að nafnið Serah Luka sé ekki meðal nafna þeirra sem er saknað. Háttsettur einstaklingur innan nígeríska hersins segir hins vegar hafið yfir allan vafa að stúlkan hafi verið meðal þeirra sem liðsmenn Boko Haram rændu frá Chibok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert