Segjast hafa fundið brak og farangur

Egypski herinn leitar vélarflaksins og nýtur stuðnings erlendra yfirvalda.
Egypski herinn leitar vélarflaksins og nýtur stuðnings erlendra yfirvalda. AFP/Varnarmálaráðuneyti Egyptalands

Egypski herinn segir brak fundið úr flugi MS804; farþegaþotu EgyptAir, sem var á leið frá París til Kaíró þegar hún hrapaði. Rannsóknaraðilar segja brakið hafa fundist um tíu mílum frá síðustu þekktu staðsetningu vélarinnar.

Associated Press hefur eftir egypskum yfirvöldum að egypskir, franskir og breskir sérfræðingar muni rannsaka brakið sem herinn segist hafa fundið og persónulega muni, sem einnig eru sagðir hafa komið í leitirnar.

EgyptAir hefur staðfest fundinn og sent samúðarkveðjur til aðstandenda farþega þotunnar.

Anthee Carassava, blaðmaður Times, tísti fyrir stundu að grísk yfirvöld hefðu staðfest að brak hefði fundist, farangur og líkamsleifar.

AFP hefur eftir talsmanni egypska hersins að brak og farangur hafi fundist 290 km norður af borginni Alexandríu.

Flugmálaráðherra Egyptalands hefur sagt að líklegra sé að hryðjuverk hafi valdið hrapi vélarinnar, en utanríkisráðherra Frakka, Jean-Marc Ayrault, segir engar bendingar uppi um ástæður hrapsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert