Zika greinist í Afríku

Moskítóflugur bera zika-veiruna manna á milli. Talið er að hún …
Moskítóflugur bera zika-veiruna manna á milli. Talið er að hún hafi borist til Grænhöfðaeyja með ferðamanni sem kom frá Brasilíu. AFP

Afbrigði zika-veirunnar sem hefur geisað í löndum Suður- og Mið-Ameríku hefur greinst í Afríku í fyrsta skipti. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) tilkynnti þetta í dag en staðfest hefur verið að sama afbrigði hefur látið á sér kræla á Grænhöfðaeyjum undan norðvesturströnd meginlands Afríku.

Um það bil ein og hálf milljón manna hefur smitast af svonefndu Asíuafbrigði zika-veirunnar í Brasilíu einni þar sem faraldurinn hefur verið hve skæðastur. Veikin hefur verið tengd við taugasjúkdóma og fæðingargalla í börnum.

Marsha Vanderford, talsmaður WHO, segir við AFP-fréttastofuna að sama erfðaefni hafi greinst í veirunni á Grænhöfðaeyjum og í Brasilíu. Niðurstaðan sé áhyggjuefni því hún sýni að veikin sé að breiðast út fyrir Suður-Ameríku. Afríkulönd þurfi að bregðast við og undirbúa sig fyrir komu veirunnar.

Stofnunin telur að afbrigði veirunnar hafi borist til Grænhöfðaeyja með ferðalangi sem kom frá Brasilíu áður en hún byrjaði að breiðast út staðbundið í október. Við lok fyrstu viku maímánaðar höfðu rúmlega 7.500 tilfelli greinst á eyjunum. Þá höfðu þrjú tilfelli komið upp þar sem börn fæddust með dvergvaxin höfuð. Það hefur verið tengt við zika-veiruna.

Afríska afbrigði veirunnar hefur lengi geisað í Afríku en hún var fyrst uppgötvuð í Zika-hitabeltisskóginum í Úganda árið 1947. Veikin vakti hins vegar litlar áhyggjur þar sem hún olli yfirleitt aðeins vægum flensueinkennum og margir íbúar álfunnar virtust hafa myndað ónæmi fyrir henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert