Lést við kynfæralimlestingu

Kynfæralimlestingar eru ólöglegar í Egyptalandi.
Kynfæralimlestingar eru ólöglegar í Egyptalandi. AFP

Yfirvöld í Egyptalandi rannsaka nú dauðsfall táningsstúlku sem lést þegar hún gekkst undir kynfæralimlestingu á einkasjúkrahúsi. Kynfæralimlestingar eru ólöglegar í Egyptalandi og bæði læknar og fjölskyldur hafa hlotið dóma í málum þeim tengdum.

Stúlkan, Mayar Mohamed Mousa, var 17 ára gömul. Systir hennar var einnig látin gangast undir aðgerðina en móðir stúlknanna er hjúkrunarfræðingur og faðir þeirra, sem er látinn, var skurðlæknir.

Mouse lést á sunnudag og á mánudag var sjúkrahúsinu lokað. Þá voru stjórnendur og starfsfólk yfirheyrð. Búið er að kryfja stúlkuna en dánarorsökin liggur ekki fyrir.

Að sögn Claudiu Cappa, aðalhöfundi nýjustu skýrslu Sameinuðu þjóðanna um kynfæralimlestingar, hafa stór skref í rétta átt verið tekin í Egyptalandi, Líberíu, Búrkína Fasó og Kenía.

Stór þáttur er breytt viðhorf mæðra, en samkvæmt rannsóknum hafa 92% egypskra mæðra verið látnar sæta kynfæralimlestingu en „aðeins“ 35% þeirra hyggjast láta umskera dætur sínar.

Afleiðingar kynfæralimlestinga eru m.a. blæðingar og sársauki við þvaglát, sársaukafull kynmök, mögulega banvæn vandkvæði við fæðingu og sálrænir erfiðleikar.

mbl.is