Verði að framlengja aðgerðirnar

Frá úkraínsku borginni Donetsk.
Frá úkraínsku borginni Donetsk. AFP

Evrópusambandið verður að framlengja refsiaðgerðir sínar gegn Rússum í þessum mánuði. Ástæðan er sú að deilan í Úkraínu er langt frá því að vera leyst. Þetta segir nýr Evrópuráðherra Úkraínu.

Ráðherrann, Ivanna Klympush-Tsintsadze, ræddi við erindreka Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag og sagði að fjórtán úkraínskir hermenn hefðu verið drepnir undanfarna viku. Árásir uppreisnarmanna sem styðja rússnesk stjórnvöld væru að færast í aukana.

Ráðherrann sagði að stjórnvöld í Moskvu væru ekki að standa við sitt. Því þyrfti nauðsynlega að framlengja refsiaðgerðirnar.

„Þegar Evrópa stendur sameinuð, það er eina tungumálið sem Rússar skilja,“ sagði hún.

Evrópusambandsríki og bandarísk stjórnvöld hafa lagt áherslu að refsiaðgerðunum verði ekki aflétt  fyrr en Rússar standi við sinn hluta af Minsk-samkomulaginu svonefnda, sem skrifað var undir í febrúar 2015. Samkomulagið kveður á um að vopnahlé komist á í stríðshrjáðum borgum líkt og Donetsk og Luhansk.

Evrópuleiðtogarnir verða að ákveða sig fyrir fund þeirra 28.–29. júní hvort þeir ætli að framlengja aðgerðirnar gegn Rússum.

Yfir níu þúsund manns hafa fallið í átökunum í Úkraínu frá því í apríl 2014, að því er segir í frétt Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert