Vilja að dómari verði látinn fjúka

Brock Turner skömmu eftir að hann var handtekinn í fyrra. …
Brock Turner skömmu eftir að hann var handtekinn í fyrra. Hann var dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga rænulausri konu á bak við ruslagám.

Rúmlega milljón manns hafa skrifað undir áskorun þar sem kallað er eftir að dómari verði vikið frá störfum, en hann dæmdi karlmann aðeins í sex mánaða fangelsi fyrir að nauðga rænulausri konu á lóð Stanford-háskóla í Bandaríkjunum.

Dómarinn, Aaron Persky, hefur verið harðlega gagnrýndur vegna þessa, en saksóknarar fóru fram á sex ára dóm.

Atvikið átti sér stað í janúar fyrra og var tvítugur háskólanemi, Brock Turner, ákærður fyrir kynferðisbrot, en hann braut gegn konunni á bak við ruslagám á háskólalóðinni. Hann var sakfelldur í mars sl. en 2. júní var hann dæmdur í hálfs árs fangelsi.

Tveir nemendur sáu Turner brjóta af sér. Hann reyndi þá að flýja en hann náðist á hlaupum. Hann játaði svo sök við aðalmeðferð málsins. 

Fram kemur á vef BBC, að undirskriftarlistinn, og aðrir undirskrifarlistar sem hafa verið stofnaðir, hafi ekkert lagalegt gildi en skipuleggjendur vonast til þess að undirskriftirnar muni þrýsta á og hvetja stjórnmálamenn til að bregðast við. 

Persky, sem er dómari við æðstarétt í Santa Clara-sýslu í Kaliforníu, hefur hlotið hótanir í kjölfar málsins, m.a. hefur honum verið hótað lífláti. 

Aðgerðarsinnar og baráttuhópar fyrir mannréttindum halda því fram að ástæðan fyrir því að dómarinn tók svona vægt á málum Turners, sé sú að Turner eigi auðuga hvíta fjölskyldu auk þess sem hann hafði átt góðu gengi að fagna sem sundkappi í skóla. 

Undirskriftarlistinn, sem birtur er á Change.org, segir að Persky hafi mistekist að senda þau skilaboð út til samfélagsins að kynferðisofbeldi sé lögbrot óháð stétt, kynþætti og kynferði.

Biden skrifar fórnarlambinu 

mbl.is