Fjögur herfylki til varnar Rússum

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP

Til stendur að Atlantshafsbandalagið (NATO) sendi fjögur fjölþjóðleg herfylki til Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands vegna vaxandi hernaðarógnar frá Rússlandi. Þetta upplýsti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á blaðamannafundi í gær.

Fram kom á fundinum að endanleg ákvörðun í þessum efnum yrði tekin á leiðtogafundi NATO í Varsjá, höfuðborg Póllands, í byrjun næsta mánaðar sem og um það hversu fjölmenn herfylkin verða og hvaða ríki leggi fram mannafla og búnað til þeirra.

Gert er ráð fyrir að aðildarríki NATO skiptist á að manna herfylkin en tryggt verði að alltaf verði fullskipuð fjögur herfylki í ríkjunum fjórum á meðan á þeim þurfi að halda. Um framvarðsveitir er að ræða en að baki þeim verða um 40 þúsund manna viðbragðssveitir NATO.

Stoltenberg upplýsti ennfremur að á síðasta ári hefðu samanlögð fjárframlög aðildarríkja NATO, að Bandaríkjunum undanskildum, til varnarmála sem hlutfall af landsframleiðslu verið jákvæð um 0,6% sem væri í fyrsta sinn sem það gerðist á undanförnum árum.

Ríkin væru farin að fjárfesta á ný í málaflokknum í stað þess að skera niður. Stefnt væri að 2% í þeim efnum en Bandaríkin hafa lengi verið í eða yfir því viðmiði. Framkvæmdastjórinn sagði þetta afar jákvætt og í samræmi við markmið bandalagsins. Reiknað væri með að á þessi ári yrðu framlögin 1,5% að meðaltali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert